Gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:00:04 (392)

1998-10-14 16:00:04# 123. lþ. 10.15 fundur 35. mál: #A gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fsp. mín til hæstv. utanrrh. um gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands er svohljóðandi:

,,Hyggst ríkisstjórnin ræða gagnkvæm og aukin menningarsamskipti Íslands og Þýskalands við væntanlega nýja ríkisstjórn í Bonn, þar á meðal um starfsemi Goethe-stofnunar í Reykjavík?``

Ástæða þessarar fsp. eru þau stjórnarskipti sem eru á döfinni í Þýskalandi og sú umræða sem fór fram um þessi efni sl. vetur þar sem Alþingi ályktaði um málið. Ég tel rétt að lesa þá ályktun upp til hliðsjónar, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar, með hliðsjón af hinum góðu samskiptum Íslands og Þýskalands, að lýsa yfir stuðningi við þau tilmæli ríkisstjórnarinnar til þýskra stjórnvalda að tryggja að Goethe-stofnunin í Reykjavík verði starfrækt áfram.

Jafnframt hvetur Alþingi ríkisstjórnina til að stuðla að því að af Íslands hálfu verði aukin kynning á íslenskri menningu í Þýskalandi.``

Í þessari samþykkt þingsins sem var einróma, það var 19. nóvember sem utanrmn. afgreiddi málið frá sér, er talað um að stuðla að gagnkvæmum samskiptum. Á það legg ég áherslu í fsp. minni þótt við ræðum hér um Goethe-stofnunina í Reykjavík en breytingar urðu á högum hennar sem kunnugt er. Frá því Alþingi ályktaði um málið hefur vissulega ýmislegt verið að gerast sem hæstv. ráðherra mun vafalaust koma að og m.a. stendur til að opna svokallað Goethe Zentrum nk. föstudag, 16. okt. 1998, og vonandi er það til bóta sem þar er á ferðinni. En ekki alls fyrir löngu var hér í heimsókn sá maður sem nú er að fást við stjórnarmyndun í Þýskalandi, Gerhard Schröder, áður en til kosninga dró. Ef ég man rétt tók hinn sami mjög jákvætt undir áhyggjur íslenskra stjórnvalda af því sem var að gerast í málefnum Goethe-stofnunar í Reykjavík og vafalaust hefur hæstv. utanrrh. rætt þau efni við Gerhard Schröder, sem var forsætisráðherra Neðra-Saxlands þegar hann kom í opinbera heimsókn. Það eru eðlilega spurningar í tengslum við þetta mál hvort ekki hafi orðið veðrabrigði varðandi stöðu þess, a.m.k. þannig að ástæða sé til fyrir íslensk stjórnvöld að taka það upp til vinsamlegrar viðræðu við þýsk stjórnvöld hvort ekki sé hægt að tryggja tilvist Goethe-stofnunar í Reykjavík fyrr en seinna, að stofnunin verði endurreist. Auðvitað kemur til greina einhver breyting á högum frá því sem var, aðalatriðið er styrking og styrking gagnkvæmra tengsla milli Íslands og Þýskalands.