Gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:07:40 (394)

1998-10-14 16:07:40# 123. lþ. 10.15 fundur 35. mál: #A gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör og ég er afar ánægður með að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra í þessu máli. Ég átti raunar ekki von á öðru því að hæstv. ráðherra sýndi þessu máli mikinn skilning og beitti sér eftir föngum í aðdraganda þess alvarlega skrefs fyrir samskipti þjóðanna sem lokun Goethe Institut í Reykjavík var að okkar mati. Ég er líka sammála því að sú viðleitni sem hefur síðan verið höfð uppi og sú staðreynd að þráðurinn slitnaði ekki heldur verður hér opnað svonefnt Goethe Zentrum í lok vikunnar í Reykjavík er brúarsporður til þess að vinna upp það sem tapast hefur. Ég hef ekki vitneskju í einstökum atriðum hvernig búið er að þessu Goethe Zentrum en þykist þó vita að talsvert mikið vanti á að það sé sá fjárhagsgrundvöllur og bolmagn sem var að baki Goethe Institut eða Goethe-stofnunarinnar hér. Það er það sem við þurfum að reyna að heimta til baka en við þurfum jafnhliða að sýna virkan áhuga á því að leggja okkar af mörkum til að kynna Ísland og íslenska menningu í Þýskalandi og leggja fram krafta í þeim efnum.

Ástæða er til að nefna að í fyrra kom sendinefnd þýskra þingmanna undir forustu þingmanns úr flokki Græningja sem mun væntanlega leggja til ráðherra í komandi ríkisstjórn. Þingmenn úr þeim flokki sýndu þessu máli mikinn skilning og börðust fyrir því ásamt fleirum, einnig jafnaðarmönnum í þinginu, að hnekkja þeirri ákvörðun sem tekin var um lokun stofnunarinnar í Reykjavík.