Gagnagrunnur á heilbrigðissviði og samkeppnisreglur

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:22:35 (399)

1998-10-14 16:22:35# 123. lþ. 10.17 fundur 59. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði og samkeppnisreglur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn um gagnagrunn á heilbrigðissviði og samkeppnisreglur er svohljóðandi og beint til hæstv. viðskrh.:

,,1. Hefur ráðherra hlutast til um, eða hefur áform um, að afla álits Eftirlitsstofnunar EFTA á því hvort hugmyndir heilbrigðisráðuneytisins um gagnagrunn á heilbrigðissviði og veitingu rekstrarleyfis til eins aðila fari í bága við samkeppnisreglur EES, reglur um útboð og reglur um ríkisaðstoð?

2. Hafi álits þegar verið leitað hjá Eftirlitsstofnun EFTA, hver eru þá viðbrögð stofnunarinnar?``

Þetta er fyrirspurnin og á bak við hana er álit sem Samkeppnisstofnun gaf heilbrrn. 29. júní 1998 og ítrekaði með bréfi 8. september að athugasemdir hennar væru í fullu gildi fyrir utan eitt atriði sem fært hefði verið til betri vegar að mati stofnunarinnar. Það atriði var varðandi ákvæði um að starfsleyfishafi sé íslenskur lögaðili. Þessu hefur verið breytt en samandregnar niðurstöður Samkeppnisstofnunar voru þessar, með leyfi forseta:

,,1. Stofnunin telur vafasamt að heimild 5. gr. frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði við veitingu sérleyfis sé nauðsynleg til að tryggja að aðrir leyfishafar geti ekki nýtt sér þá vinnu og fjárfestingar sem tiltekinn leyfishafi hefur lagt í við gerð gagnagrunns.

2. Vegna óvissu um forsendur getur Samkeppnisstofnun ekki tekið afstöðu til þess hvort kostnaður leiði til þess að sérleyfi sé nauðsynleg forsenda til þess að unnt verði að ráðast í gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði. Samkeppnisstofnun beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að gerð verði nánari úttekt á þörfinni fyrir veitingu sérleyfis.

3. Hætta er á því að veiting sérleyfis á þessu sviði brjóti í bága við 1. mgr. 59. gr. og 3. gr. EES-samningsins, samanber 54. gr. Samkeppnisstofnun hvetur ráðuneytið til að leita álits Eftirlitsstofnunar EFTA vegna þessa.``

4. tölul. varðar síðan þetta með íslenskan lögaðila. Því atriði hefur verið breytt í þeirri gerð frv. sem liggur fyrir þinginu.

Á bak við þessar meginniðurstöður liggja ýmsar ábendingar. Þetta er ítarleg umsögn á mörgum síðum frá Samkeppnisstofnun um málið og þar er m.a. bent á tilskipun Evrópusambandsins, nr. 96/9 frá 11. mars 1996, um lögverndun gagnagrunna. Athygli er vakin á því að inntak þess réttar veiti ,,sinnar tegundar`` rétt eins og hann er kallaður, ,,sui generis``, og því er lýst nánar í 7. gr. þessarar tilskipunar. Samanlagt leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu Samkeppnisstofnunar sem ég hef bent á. Þar sem þessi samningur og samningsákvæði heyra undir hæstv. viðskrh. kaus ég að bera þessa fyrirspurn fram við hæstv. ráðherra.