Starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:34:42 (403)

1998-10-14 16:34:42# 123. lþ. 10.18 fundur 68. mál: #A starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 68 beinir hv. þm. Kristján Pálsson til mín fsp. um hugmyndir um starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Er fyrirhugað að gera einhvers konar frísvæðasamning um kvikmyndaiðnað á Íslandi?``

Seinni hluta ágústmánaðar var staddur hér á landi forstjóri kvikmyndafyrirtækisins Miramax Dimension. Hann kom á vegum viðskiptaþjónustu utanrrn. en í boði iðn.- og viðskrn. Þetta fyrirtæki er alfarið í eigu Disney-samsteypunnar og Miramax framleiðir á ári hverju um 30 kvikmyndir og velta þessa fyrirtækis er í kringum 36 milljarðar ísl. kr. Tilgangur ferðar forstjóra Miramax hingað var sá að kynna sér aðstæður til kvikmyndagerðar hér á landi, einkum hvort og þá með hvaða hætti íslensk stjórnvöld væru tilbúin til að ívilna fyrirtækinu, t.d. skattalega ef það legði í umtalsverðar fjárfestingar hér á landi.

Heimsókn þessa manns er fullrar athygli verð og á vissan hátt nokkuð sérstök fyrir þær sakir að venjulegast eru það ríki og borgir sem standa í samkeppni sín á milli um að laða til sín stórfyrirtæki á þessu sviði, þannig að Ísland hefur sérstöðu hvað þetta snertir. Ljóst er að íslenskri kvikmyndagerð yrði það mikil lyftistöng að fá inn í landið kvikmyndaver eins og hér er um rætt, en það mundi auk þess hafa veruleg áhrif út fyrir raðir þeirra fjölmörgu sem að þeim málum starfa. Af þessum málum má ráða og hugmyndum Miramax að þeim hefur verið vel tekið hér. Á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar frá því fyrir nokkru síðan skipaði ég sérstakan starfshóp sem hefur fengið það hlutverk að kanna ofan í kjölinn hvaða tækifæri kunna að felast í yfirlýstum áhuga þessa bandaríska kvikmyndafyrirtækis eða annarra sambærilegra fyrirtækja um fjárfestingar hér á landi í tengslum við kvikmyndaiðnaðinn.

Nefnd þessi er skipuð fulltrúum iðn.- og viðskrn., fjmrn., menntmrn. og umhvrn. Nefndin á að skila tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar. Staða málsins um þessar mundir er sú að nú er unnið að samanburði á kostnaði við kvikmyndagerð hér á landi og í öðrum löndum og að skoða ívilnanir sem annars staðar standa til boða við svipaðar kringumstæður. Á þessa vinnu ber að líta sem nauðsynlega forvinnu fyrir slíkri ákvarðanatöku, m.a. á vegum áðurnefndrar nefndar. Málið er því á frumstigi skoðunar og fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir tel ég vera ótímabært að hafa uppi áform um hvort frísvæðasamningur um kvikmyndaiðnað á Íslandi gæti hér komið að notum eða ekki.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hefur skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum sem afhent var utanríkisráðherra 15. nóvember 1995 verið skoðuð af viðskiptaráðuneytinu þannig að kvikmyndaver gæti risið á grunni niðurstaðna hennar?``

Þessi skýrsla hefur verið skoðuð og lesin með mikilli athygli í viðskrn. Ég tel að það sé tvennt sem komi til greina þegar við förum að velta því fyrir okkur hvort hægt væri að laða hér að erlenda fjárfesta á þessu sviði. Annars vegar væri um að setja almennar reglur sem mundu gilda sem fyrirtæki hér innan lands gætu líka búið við. Eða í öðru lagi að gera sérstakan fjárfestingarsamning við viðkomandi fyrirtæki um mikla fjárfestingu eins og við þekkjum. Þar tel ég að við séum ekki að fara inn á þá braut að skapa almenna löggjöf um fríverslun eða frísvæði. Ég tel eins og hér kom fram hjá utanrrh. áðan að vissar líkur væru á því að slík lagasetning gæti brotið í bága við EES-samninginn og samkeppnisreglur hans. Að baki hugmyndum sem uppi eru um alþjóðaviðskiptamynstur, eins og ég veit að hv. þm. hefur heyrt talað um, liggur sambærileg hugsun og ef um frísvæði væri að ræða, en þar er hins vegar um að ræða starfsemi sem fellur utan EES-samningsins, um þriðju landa viðskipti á sviði sjávarútvegs sem falla utan EES-samningsins og það er meginmunurinn þar á. Og af því hv. þm. hefur nokkuð vitnað til Íra í þessu sambandi er ljóst að Írar verða út af EES-samningnum að breyta sínum reglum og gert er ráð fyrir að það verði árið 2001.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Er fyrirhugað að leggja fram frumvarp til laga sem geri mögulegt að fyrirtæki eins og kvikmyndaver hefðu frísvæðakjör hér á landi?``

Við höfum eins og ég sagði áðan gert fjárfestingarsamninga, ef um erlenda fjárfestingu hefur verið að ræða, upp á rúmar 100 millj. Bandaríkjadala og ég tel að það komi til greina að gera slíkan samning. En á meðan nefndin hefur ekki lokið störfum sínum tel ég ekki rétt og tímabært að kveða upp úr um það hvort slíkt lagafrv. verði flutt hér eða ekki.