Starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:42:32 (405)

1998-10-14 16:42:32# 123. lþ. 10.18 fundur 68. mál: #A starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:42]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Til að það sé alveg skýrt, þá tel ég þær hugmyndir sem fram koma í skýrslunni, sem hv. þm. hefur vitnað í um frísvæði á Suðurnesjum, allrar athygli verðar. Vitaskuld mun nefndin sem nú hefur verið skipuð horfa mjög á þær tillögur sem þar liggja fyrir. En engu að síður er ég í vafa um að frísvæði sem slíkt og sú hugsun sem þar liggur að baki komi að gagni í þessu sambandi vegna þess að það þarf að vera um starfsemi að ræða á frísvæði sem er utan EES-samningsins.

Varðandi úrskurð EFTA um að menn gætu rekið slíka starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins, þá byggir það á öðru ákvæði EES-samningsins, að ég hygg, sem snýr að því að heimilt sé að mismuna þegar menn eru með byggðastyrki í gangi í þeim efnum. Það þekkjum við m.a. frá því að heimilt er að mismuna, eða veita slíkar niðurgreiðslur á flutningsjöfnun á olíu og þar fram eftir götunum af því það er tengt byggðastyrkjum sem slíkum. Hins vegar held ég að slíkir styrkir og slík mismunun kæmi ekki að gagni fyrir fyrirtæki sem vildi starfa með þessum hætti, vegna þess að það þyrfti að einhverju leyti að starfa í höfuðborginni líka. Þess vegna þurfum við að horfa á það hvort getum við nýtt okkur þær hugmyndir sem eru að baki í þessari skýrslu, sem ég vil alls ekki útiloka og mun láta skoða, og svo hitt hvor leiðin okkur finnst vera vænlegri, að skapa almenna reglu fyrir kvikmyndaiðnaðinn í landinu í heild sinni eða þá að reyna að fara þá leið sem við höfum verið að fara í stóriðjunni, að gera sérstaka fjárfestingarsamninga, en þá höfum við líka að verið að tala um fjárfestingu sem er af þeirri stærðargráðu sem ég minntist á áðan.