Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 10:55:33 (408)

1998-10-15 10:55:33# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[10:55]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður þakka hæstv. forseta þingsins, hv. 1. þm. Reykn., fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt Alþingi um starfsemi Ríkisendurskoðunar á árinu 1997. Það ber auðvitað enn og aftur að undirstrika vegna þess að það hefur margoft sýnt sig að starfsemi Ríkisendurskoðunar hefur margsannað sig og sýnt að hún er mjög mikilvæg þingmönnum og Alþingi við að sinna mikilvægu hlutverki sem er eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Á þeim árum sem Ríkisendurskoðun hefur starfað hefur margoft komið fram hve mikilvæg þessi stofnun er en hlutverk hennar er kannski ekki síst að sjá til þess að fjármunum skattgreiðenda sé ráðstafað á skilvirkan hátt.

Eins og fram kemur í skýrslunni voru ný lög sett um Ríkisendurskoðun á árinu 1997 og þar voru ýmis nýmæli, kannski nákvæmari heimildir um stjórnsýsluendurskoðun en líka að því er varðar umhverfisendurskoðun sem mun örugglega vega þungt í nánustu framtíð.

Í þeim lögum sem samþykkt voru 1997 var vissulega margt til bóta en ég hefði þó talið að þar mætti gera raunverulega enn betur til að styrkja möguleika þingmanna til að sinna eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu, þ.e. að þingmenn eða a.m.k. þingflokkar hefðu beinan aðgang að Ríkisendurskoðun en ekki fyrir atbeina forsætisnefndar. Ég hefði talið að það mundi styrkja mjög og auðvelda eftirlit þingmanna með framkvæmdarvaldinu.

Ég held að gagnsemi Ríkisendurskoðunar hafi líka komið í ljós að því er varðar framkvæmdarvaldið, en á umliðnum missirum hafa allt of oft komið röng svör frá ráðherrum til þingmanna. Þar hefur Ríkisendurskoðun reynst ómetanleg til að upplýsa það rétta í viðkomandi máli.

Í þeirri skýrslu sem við fjöllum um núna kemur fram, með leyfi forseta, að ,,á árinu 1997 var sérstök áhersla lögð á skoðun á innra eftirliti og athugun launa- og starfstengdra liða.`` Þar kemur einnig fram, með leyfi forseta, sem ég vil vitna í að ,,þegar á heildina er litið virðist nokkuð skorta á að innra eftirlit sé nýtt sem stjórntæki til að bæta árangur í rekstri ríkisstofnana. Þá voru m.a. gerðar athugasemdir vegna launakostnaðar og viðveruskráningar hjá yfir helmingi þeirra stofnana sem endurskoðaðar voru.``

Þetta er ansi hátt hlutfall að þurft hafi að gera athugasemdir við launakostnað og viðveruskráningu hjá yfir helmingi þeirra stofnana sem endurskoðaðar voru. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hann viti --- af því mér gafst ekki tími til að skoða það nánar eða fara yfir það --- í hverju athugasemdir varðandi launakostnaðinn hafa helst verið fólgnar.

Það er líka mjög athyglisvert sem fram kemur í skýrslunni að ,,áætlun um fjárhagsendurskoðun ríkisaðila gerir ráð fyrir að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti séu allar stofnanir og fjárlagaliðir endurskoðaðir rækilega. Síðastliðin fjögur ár hefur stofnunin unnið að þessu marki og náðist það í megindráttum í árslok 1996.`` Ég tel mjög mikilvægt að það markmið hafi náðst fram, að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti séu allar stofnanir og fjárlagaliðir endurskoðaðir rækilega.

[11:00]

Það kemur fram í þessari skýrslu og kom reyndar fram í máli hv. 1. þm. Reykn. að stofnunin þarf að leita mikið til sjálfstætt starfandi löggiltra endurskoðenda af því að starf Ríkisendurskoðunar er mjög umfangsmikið, að í gildi eru samningar við 28 endurskoðunarskrifstofur eða voru það í árslok 1996 og að hátt í 6.000 tímar séu keyptir sem er nauðsynlegt vegna þeirrar víðtæku starfsemi sem þarna fer fram. Maður veltir fyrir sér hvort það hafi verið skoðað hvort hagkvæmara sé að gera þetta svona, þ.e. að kaupa þetta út hjá sjálfstætt starfandi löggiltum endurskoðunarskrifstofum eða hvort það borgi sig að auka við umfang stofnunarinnar til að hún geti sjálf sinnt þessu. Ég spyr um það hvort hæstv. forseta þingsins og frsm. þessarar skýrslu sé kunnugt um hvort farið hafi fram einhver samanburður á því hvort er hagkvæmara.

Ég tók líka eftir því að hv. frsm. nefndi að farið hafi fram útboð, eða fari fram, á endurskoðunarþjónustu þegar hún er mjög umfangsmikil og er það auðvitað mjög gott að það skuli gert. Ég vil í því sambandi minnast á bréf sem þingflokkur jafnaðarmanna sendi forsn. Alþingis 11. mars 1998 þar sem þingflokkurinn fór fram á endurskoðun hjá ríkisviðskiptabönkunum og Seðlabanka. Bréfið hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 3. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, getur forsn. að ósk þingmanns krafist skýrslna um einstök mál er falla undir Ríkisendurskoðun. Með heimild í 3. gr. óskar þingflokkur jafnaðarmanna eftir því að Ríkisendurskoðun framkvæmi sérstaka endurskoðun hjá ríkisbönkum og Seðlabanka.

Tilefni þessarar beiðni er að á undanförnum mánuðum og missirum hafa komið fram upplýsingar á Alþingi um ýmislegt í starfsemi bankanna og rekstri sem kallar á úttekt. Auk þess ber brýna nauðsyn á sérstakri úttekt á ríkisviðskiptabönkum fyrir formbreytinguna til þess að hægt verði að leggja mat á hagkvæmni hlutafélagavæðingu bankanna.

Þingflokkur jafnaðarmanna leggur áherslu á að þessari endurskoðun verði hraðað eftir föngum.``

Undir þetta ritar formaður þingflokks jafnaðarmanna, Rannveig Guðmundsdóttir.

Nú er nokkuð um liðið síðan beðið var um þessa stjórnsýsluúttekt á bönkunum og Seðlabanka. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann viti nokkuð hvað þeirri endurskoðun líður, hvort honum sé kunnugt um hvort fram hafi farið útboð að því er varðar endurskoðun á bönkunum sem hann nefndi, af því að ég hjó eftir því í máli hans að hann nefndi einmitt sérstaklega úttekt á bönkunum sem stórt verkefni, og hvort útboðið sem hann nefndi tengist þessu bréfi og beiðni frá þingflokki jafnaðarmanna um úttekt og endurskoðun á ríkisviðskiptabönkunum og Seðlabanka. Það er mikilvægt, herra forseti, að niðurstaðan af slíkri úttekt liggi fyrir sem fyrst.

Ég vil líkt og hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, ítreka nauðsyn þess að sett verði á laggirnar sérstök nefnd til að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þetta er, eins og hv. þm. nefndi, ekki í fyrsta skipti sem sú krafa kemur úr þessum ræðustól frá hv. síðasta ræðumanni, þeirri sem hér stendur og reyndar fleirum. Ég veit ekki annað en að forseti hafi tekið vel undir það og sett reyndar fram sjálfur að slíkt sé nauðsynlegt, þ.e. að það sé sérnefnd sem fjalli um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Mér er raunverulega ekki kunnugt um að nokkur andstaða, herra forseti, sé við því að setja á laggirnar slíka nefnd. Svo mikilvæg sem Ríkisendurskoðun er í öllum störfum þingsins þá er auðvitað lágmark að skýrslan fái sérstaka umfjöllun í nefnd og að sú nefnd skili síðan niðurstöðu sinni til þingsins aftur þannig að þá sé hægt að fara yfir málið. Ég hygg því að hér skorti fyrst og fremst á framkvæmdina, það að koma þessu í verk frekar, en að mikil andstaða sé, svo mér sé kunnugt, hér í þinginu. Ég vil því líkt og síðasti ræðumaður spyrja hvort þess sé ekki að vænta að menn bretti upp ermar og komi því í verk að það verði sérnefnd sem fjalli um skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Reyndar vil ég líka spyrja hæstv. forseta hvort við megum vænta þess að endurskoðun almennt á þingsköpunum sé í undirbúningi. Það hafa verið að koma fram ýmis mál sem snerta breytingar á þingsköpum. Ég hef nú flutt í annað ef ekki þriðja sinn frv. um að komið verði á fót sérstökum rannsóknarnefndum sem geti að eigin frumkvæði fjallað um og rannsakað önnur mál en þau sem ríkið vísar til þeirra, svo sem framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar. Þetta mál hefur ekki fengið mikla umfjöllun í nefnd sem því var vísað til á síðasta þingi, þ.e. hv. allshn., einmitt vegna þeirra raka meiri hlutans að verið væri að fjalla um breytingar á þingsköpunum. Að þessu gefna tilefni spyr ég hæstv. forseta hvort þetta mál hafi sérstaklega verið skoðað. Það snertir jú aðbúnað og möguleika þingmanna til þess að sinna eftirlitsskyldu sinni með þinginu ekki síður en starfsemi Ríkisendurskoðunar, ef komið verður á fót sérstökum rannsóknarnefndum í þinginu.

Ég vil líka nefna nauðsyn þess að sérstök nefnd fjalli um þessa skýrslu af því að ég sakna þess í skýrslunni, ég hef ekki rekist á það við fljóta yfirferð að þess sé getið í skýrslunni hvernig hinar ýmsu ríkisstofnanir sem Ríkisendurskoðun skoðar bæði fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun, framfylgja svo þeim ábendingum sem koma frá Ríkisendurskoðun vegna þess að oft er um það að ræða að Ríkisendurskoðun er með mjög gagnmerkar og nauðsynlegar ábendingar um það sem betur má fara í stjórnsýslu einstakra stofnana sem snerta bæði framkvæmdaatriði innan viðkomandi stofnunar og eins kannski breytingar á lögum og reglum. Mér hefur skilist að stofnanirnar hafi bærilega framfylgt þessu og gert úrbætur í samræmi við þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun hefur gert. Engu að síður finnst mér að í þessa skýrslu skorti það að við höfum eitthvert yfirlit um það hvernig stofnanirnar hafa brugðist við og hvað það er sem út af stendur og þær ekki hafa brugðist við. Það er auðvitað verkefni þeirrar nefndar sem við hv. þm. Svavar Gestsson erum að kalla eftir, að fara rækilega yfir hvernig stofnanirnar framfylgi þeim úrbótum sem Ríkisendurskoðun kallar eftir og hvað stendur út af og hvernig þingið sjálft geti brugðist við ýmsum athugasemdum frá Ríkisendurskoðun sem hugsanlega snúa að lagabreytingum, t.d. ábendingum um reglugerðarbreytingar sem ráðherrar framfylgja ekki o.s.frv.

Ég vil spyrja hæstv. forseta um vitneskju hans um það hvernig að því hefur verið staðið og hvort það sé umkvörtunarefni ríkisendurskoðanda að brögð séu að því að ábendingum hans sé ekki framfylgt af hálfu stofnana sem hann framkvæmir fjárhagsendurskoðun eða stjórnsýsluendurskoðun hjá.

Herra forseti. Mér finnst mjög athyglisverð sú tafla sem kemur fram í skýrslunni á bls. 12, þar sem er skipting heildartíma fjárhagsendurskoðunar eftir ráðuneytum. Það er aðallega fjmrn. sem mestur tími fer í varðandi fjárhagsendurskoðun og auðvitað er á því skýring. En þetta er mjög mismunandi eftir ráðuneytum og nánast ekkert hjá viðskrn. Lítill tími hefur farið í endurskoðun að því er varðar stofnanir sem heyra undir það. Ég nefndi bankana áðan. Ég veit ekki til þess að nokkru sinni frá því að þessi stofnun tók til starfa hafi farið fram stjórnsýsluendurskoðun á bönkunum. Ég held að við höfum orðið vitni að því á síðasta þingi að það er full þörf á því. Þessi tafla og súlurit vöktu athygli mína á því hve mjög mismunandi það er hvernig heildartími í fjárhagsendurskoðun skiptist milli ráðuneyta, en þar er mjög mikill munur á.

Ég sé að tíma mínum er lokið og vil segja að hér er mjög góð skýrsla á ferðinni, að vísu ábótavant eins og ég nefndi að því er varðar það að við fáum betri vitneskju um það hvernig stofnanir sinna þeim umbótum sem Ríkisendurskoðun beinir til þeirra. En ég vænti þess að hæstv. forseti sem hefur framsögu í þessu máli geti eitthvað hér úr bætt að því er svör við því varðar.