Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 11:11:03 (409)

1998-10-15 11:11:03# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), JónK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[11:11]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1997 liggur hér fyrir til umræðu. Ég vil þakka þá skýrslu sem er greinileg og gefur góða mynd af starfsemi stofnunarinnar að vanda. Ég kem einkum upp til að þakka samskipti Ríkisendurskoðunar og fjárln. sem eru margvísleg. Ríkisendurskoðun hefur gefið greinargerðir um afkomu ríkissjóðs og stöðu mála á hverjum tíma og það hefur verið farið yfir þær í fjárln. Ríkisendurskoðun hefur gefið skriflegar umsagnir um fjáraukalög á síðustu árum. Sú skipan hefur verið tekin upp nefndarmönnum til hægðarauka. Ríkisendurskoðun hefur veitt nefndinni margvíslega aðstoð en eins og segir í lögum um hana þá er það eitt af hlutverkum hennar að aðstoða þingnefndir. Fjárln. hefur nýtt sér það á margan hátt. Starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafa verið nefndarmönnum hjálplegir og gefið upplýsingar í vinnu þegar nefndarmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, eru að undirbúa nál. og undirbúa 2. og 3. umr. fjárlaga. Fyrir þetta vil ég þakka við þetta tækifæri. Samskipti nefndarinnar við stofnunina hafa verið með ágætum.

Ég átti þess kost ásamt hv. 8. þm. Reykv. sem talaði hér áðan að kynna mér starfsemi bresku ríkisendurskoðunarinnar og sat þá nefndarfundi í breska þinginu sem starfsmenn hennar undirbjuggu með þeirri ,,control``-nefnd sem þar er. Ég tek undir að það var einkar fróðlegt. Það vakti athygli hve fundurinn var vel undirbúinn af beggja hálfu, en tilefnið var að yfirheyra forstjóra vatnsveitnanna í Yorkshire til þess að komast að raun um hvernig einkavæðing þeirra hefði tekist. Þetta var mjög fróðlegt á að hlýða.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að hér vantar ákveðinn skýran þinglegan farveg fyrir skýrslur Ríkisendurskoðunar. Við höfum t.d. í fjárln. kallað á starfsmenn hennar til að fara yfir ýmsar skýrslur sem við teljum að komi fjárhag ríkissjóðs sérstaklega við. En okkur vantar skýran og þinglegan farveg og fyrirmæli til að fylgja þeim eftir. Umræðan hefur hnigið að því hér eins og fram hefur komið í umræðunni að stofna sérnefnd í þessu skyni.

[11:15]

Mér er ekki kunnugt um hvar sú endurskoðun sem stendur yfir á þingsköpum er á vegi stödd. Ég hef ekki átt aðild að þeirri endurskoðun. Eðlilegt er auðvitað að skipan nefndar fylgi þeim ákvörðunum ef breytingar eru gerðar og verði þá flutt frumvarp um allar þær breytingar. Það hafa oft fallið yfirlýsingar um það frá mér áður að mér finnist eðlilegt að starfandi sé nefnd í Alþingi sem taki þessar skýrslur til þinglegrar meðferðar og skili áliti um þær á þskj.

Ég tel að Ríkisendurskoðun sé sá farvegur sem þingið á að nota til að gera fjárhagsendurskoðanir og rannsóknir á fjárreiðum stofnana. Ég er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að þingið fari að stofna sérstakar rannsóknarnefndir til þess að kalla menn til yfirheyrslu. Ég tel að Ríkisendurskoðun sé sá aðili sem eigi að gera slíkt og leggja niðurstöður sínar síðan fyrir þingið. Það er áríðandi að festa þá skipan í sessi. Ég er ekki fylgismaður þeirra rannsóknarnefnda sem hv. 13. þm. Reykv. nefndi í umræðunni. Það tel ég að sé hlutverk Ríkisendurskoðunar en ég tel að það sé hlutverk þingsins að taka við þeim skýrslum sem koma frá stofnuninni og ákveða þá hvað þingið geri í framhaldi af þeim.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Erindi mitt hingað var að undirstrika mikilvægi þessarar stofnunar þingsins og þakka fyrir þau samskipti fyrir hönd fjárln. sem nefndin hefur átt við stofnunina.