Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 12:06:30 (422)

1998-10-15 12:06:30# 123. lþ. 11.5 fundur 60#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[12:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til við að ræða mikilvæga skýrslu sem er skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1996. Hv. allshn. hefur fengið umboðsmann árlega á fund sinn til þess að fjalla lítillega um þessa skýrslu. Það er alveg ljóst að miðað við það hvað allshn. er störfum hlaðin --- en hún fær af nefndum þingsins næstflestan málafjölda til sín að því er ég best veit --- getur hún ekki með fullnægjandi og góðu móti fjallað um þessa skýrslu eins og nauðsynlegt væri og efni standa til. Ég hygg því að við séum enn með rök fyrir því sem við ræddum áðan undir liðnum Skýrsla Ríkisendurskoðunar, að nauðsynlegt er að setja á stofn sérstaka nefnd til að fjalla ítarlega um þær skýrslur sem berast, ekki síst frá Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis.

Hér hefur orðið nokkur umræða um þann fjölda mála sem berst til umboðsmanns Alþingis og þann drátt, sem ég tel eðlilegan, sem orðið hefur á afgreiðslu mála frá umboðsmanni Alþingis. Frá því að umboðsmaður Alþingis var settur á laggirnar 1987 hefur sívaxandi fjöldi mála borist til umboðsmanns. Ef ég man rétt er þetta hátt á fjórða hundrað mála á ári og það er alveg ljóst að með þeim lögum sem sett voru 1997, ef ég man rétt, var enn verið að víkka út starfssvið umboðsmanns Alþingis. Áður tók starfssvið umboðsmanns Alþingis aðeins til stjórnsýslu sveitarfélaga, að um væri að ræða ákvarðanir sem skjóta mætti til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins, en með þeim lögum sem sett voru 1997 hefur þessi takmörkun verið felld niður þannig að undir starfssvið umboðsmanns Alþingis fellur einnig hér eftir sú stjórnsýsla sveitarfélaga sem fellur ekki undir rétt til málskots til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Einnig var gerð sú breyting að starfssvið umboðsmanns tekur einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur ekki með lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Það má því búast við því, herra forseti, að næst þegar við fjöllum um skýrslu umboðsmanns, en við erum nú að fjalla um skýrsluna 1996, þá verði áhrifin af þessari útvíkkun á starfssviði umboðsmanns komin fram þannig að við munum þá einnig sjá að það gæti svo farið að umfang mála væri enn meira og erfiðara fyrir umboðsmann að inna þau öll af hendi á tilskildum tíma miðað við þann mannskap sem hann hefur yfir að ráða. Ég held því að það sé nauðsynlegt að Alþingi og fjárveitingavaldið hafi góðan skilning, sem ég efa ekki að það hafi, á stöðu umboðsmanns og hvað nauðsynlegt er að búa þannig að honum varðandi mannafla og starfsaðstöðu alla, að honum sé fært að sinna mikilvægu og brýnu hlutverki sínu. Mig minnir að það sé ekki nema um 30--40 millj. sem fari til reksturs umboðsmanns Alþingis og ef vel ætti að vera þyrfti að auka þarna verulega við til þess að við þyrftum ekki að fjalla um þann drátt sem verður á afgreiðslu mála frá umboðsmanni. Ekki er þar við umboðsmann eða starfslið hans að sakast því það fólk sem þar vinnur og umboðsmaður á hrós skilið fyrir hvað vel umboðsmaður og starfslið hans hefur innt sitt verk af hendi.

Við getum líka velt fyrir okkur í þessari stofnun af hverju málafjöldinn fer sívaxandi. Er það eitthvað í störfum þingsins, í lagasetningu eða annað sem leiðir til þess að málafjöldinn er svo mikill? Ég man eftir því að í skýrslu umboðsmanns Alþingis, mig minnir á síðasta þingi eða þar áður, var aðeins farið yfir skýringar á þessu og þar var m.a. minnst á að íslensk stjórnsýsla hafi lengst af verið lausari í reipunum en stjórnsýsla nágrannaþjóðanna, lög séu oft óskýr um stöðu stofnana og embætta í stjórnsýslukerfinu og einmitt það valdi oft vafa á því hvort aðila máls er heimilt að skjóta ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalda til ráðuneytis eða annarra stjórnsýsluhafa. Nú benti umboðsmaður einmitt á að rekja mætti hluta mála sem embættinu berast til þess að ekki hefur verið hugað að því við setningu laga að haga stjórnsýslukerfinu þannig að stjórnsýslan sé sjálf fær um að leysa á fljótvirkan og ódýran hátt þau vandamál sem upp koma. Það má líka vera. Á það hefur stundum verið bent að sú tilhneiging hafi verið í áranna rás að Alþingi framselji vald meira með reglugerðum yfir til framkvæmdarvaldsins. Auðvitað hef ég ekki skoðað það grannt hvort þar sé einhver skýring á ferðinni á hinum vaxandi fjölda mála. En ég held að við ættum líka að velta þessari hlið mála fyrir okkur hvort eitthvað sé í störfum þessarar virðulegu stofnunar sem gerir það að verkum að fjöldi mála fer vaxandi og fólk þarf í auknum mæli að leita með mál sín til umboðsmanns Alþingis.

Við höfum það líka fyrir okkur á hv. Alþingi á umliðnum árum að mikil tilhneiging er til þess að fjölga umboðsmönnum á hinum ýmsu sviðum. Við höfum umboðsmann barna og menn hafa stundum velt fyrir sér hvort þar sé einhver skörun að því er varðar umboðsmann barna og umboðsmann Alþingis, en ég held ekki. Ég held að verksviðin þar á milli séu alveg sæmilega skilgreind, en hér hafa menn viljað koma á fót umboðsmanni jafnréttismála, umboðsmanni sjúklinga, ja, umboðsmanni aldraðra, er það ekki rétt? Hæstv. forsrh. hefur talað um umboðsmann skattgreiðenda þannig að það eru komnar ansi margar tillögur um að fjölga umboðsmönnum hér á landi og við getum velt fyrir okkur af hverju það er. (Gripið fram í: Svo vantar umboðsmann hinna dauðu eftir gagnagrunnsfrv.) Já, svo er bent á að eftir gagnagrunnsfrv. þurfi umboðsmann hinna látnu og verður væntanlega farið yfir það hér á eftir. Þetta er allt orðið mikið umhugsunarefni og efast ég ekki um að t.d. á sviði jafnréttismála sé þörf á að fá umboðsmann jafnréttismála vegna þess að á því sviði, svo við tökum það fyrir sérstaklega, þá átti að vera komið á launajafnrétti fyrir 30--40 árum en þar eigum við langt í land þrátt fyrir ýmsa lagasetningu og þrátt fyrir að hert hafi verið á jafnréttislögunum o.s.frv., þá búum við enn við mikið misrétti að því er varðar launamál kynjanna. Það er því mál sem ég vil taka undir að full ástæða er til að íhuga vel hvort ekki er hægt að setja á umboðsmann jafnréttismála.

Ég hef meiri efasemdir að því er varðar tillögu forsrh. um umboðsmann skattgreiðenda. Þar tel ég að skoða ætti það frekar að aðstaða umboðsmanns Alþingis sé með þeim hætti að hann geti tekið við kvörtunum sem snúa að skattamálum og stöðu skattgreiðenda. Það hefur ekki mikið bólað á þeirri hugmynd hæstv. forsrh. síðan hann setti hana fram fyrir einhverjum mánuðum og ég man ekki eftir að ég hafi séð það á málaskrá forsrh. Það hefði auðvitað verið æskilegt að forsrh. væri hér til að ræða það mál ef hæstv. forsrh. er fallinn frá þeirri hugmynd til að styrkja stöðu umboðsmanns frekar en gert er á fjárlögum núna við afgreiðsluna þannig að hann geti tekið við þeim fjölda erinda sem berast að því er varðar skattamál.

[12:15]

Ég vil einnig nefna að umboðsmaður sjálfur hefur í samtölum við allshn. sett fram mjög athyglisverða tillögu um breytingu á heitinu umboðsmaður Alþingis til aðgreiningar frá umboðsmanni barna og því sem er verið að nefna varðandi aðra umboðsmenn og hefur rætt um heitið ,,lögsögumaður`` sem mér finnst mjög gott. Það ætti að skoða hvort ekki væri rétt að breyta nafninu á umboðsmanni Alþingis og taka til alvarlegrar skoðunar þá tillögu sem umboðsmaður sjálfur hefur uppi í þessu efni.

Ég vil í lokin nefna að við í allshn. höfum nokkuð rætt þá hugmynd sem umboðsmaður hefur verið með uppi en það er tillaga um að umboðsmaður Alþingis fengi heimild til að veita gjafsókn sem væri ætlað að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu og treysta rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Umboðsmaður benti á að 1991 voru sett lög um meðferð einkamála en þar var ekki að finna ákvæði sem veitir dómsmrh. heimild til að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis. Ég man að allshn. hefur tekið undir nauðsyn slíkrar heimildar fyrir umboðsmann að veita gjafsókn. Hv. starfandi formaður allshn., sem mælir fyrir skýrslunni, gæti e.t.v. rifjað það upp hvort allshn. hafi ekki komið formlega á framfæri við dómsmrh. eða í nál. sínu hér í þinginu, nauðsyn þess að umboðsmaður Alþingis hefði slíka heimild til að veita gjafsókn. Ég man ekki eftir hvort þetta er í þeim frv. sem dómsmrh. hefur boðað, mig minnir þó síður þó ég vilji nú ekki þvertaka fyrir það. Ég vil setja það fram hér sem skoðun mína og spyrja hv. starfandi formann allshn. hvort hún geti ekki tekið undir það með mér að ef ekki bólar á því hjá framkvæmdarvaldinu á þessum vetri að umboðsmaður fái slíka heimild, að allshn. skoði það þá sérstaklega að flytja sjálf slíkt frv. í eigin nafni þannig að heimildin sé fyrir hendi. Ég man ekki eftir því að fram hafi komið nein sérstök andstaða af hálfu dómsmrn. eða dómsmrh. að því er það varðar og minnist þess ekki að lagt hafi verið fram frv. um það. En ég vil bara halda þessu til haga hér þegar við ræðum þessa mikilvægu skýrslu umboðsmanns Alþingis, að þetta mál gleymist ekki sem ég held að sé mjög mikilvægt og þýðingarmikið í störfum umboðsmanns Alþingis.

Að öðru leyti vil ég nota tækifærið til að þakka umboðsmanni Alþingis og starfsliði hans fyrir mjög gott starf og enn og aftur sýnir það sig hve merk löggjöf var hér á ferðinni sem sett var fyrir rúmum 10 árum varðandi umboðsmann Alþingis og það á að vera metnaður löggjafarsamkomunnar og fjárveitingavaldsins að búa svo um hnútana að því er varðar störf umboðsmanns Alþingis að hann geti leyst þau verkefni eðlilega og með eðlilegum hraða sem hann fær til sín frá hinum ýmsu aðilum og borgurum en hér hefur einmitt verið gagnrýnt að umboðsmanni Alþingis er ekki búin sú staða í dag að geta leyst sín verkefni eðlilega en ég er sannfærð um að það er vilji allra hv. þm. að halda svo á málum að svo geti orðið í nánustu framtíð.