Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:40:57 (431)

1998-10-15 13:40:57# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er enginn ágreiningur um að samkomulag þurfi til að ræða mál saman hér í þinginu. Það samkomulag var í boði af allra hálfu nema hæstv. heilbrrh., sem hafnar því. Það er rétt að hv. formaður þingflokks Framsfl., Valgerður Sverrisdóttir, sagði á þriðjudagsmorgni að hún hafði fyrirvara um afstöðu hæstv. ráðherra, enda ósköp eðlilegt að ræða við hæstv. ráðherrann þar sem hún hefur forræði á fyrsta málinu.

Það sem við erum að segja, í mínum huga er það a.m.k. svo, er hversu óeðlilegt það er að standa fast á þessu sem hæstv. ráðherra gerir, að gera ekki umræðuna skilmerkilegri fyrir þing og þjóð með því að hér séu reifuð þau mál sem fyrir þinginu liggja og varða sama svið. Málið snýst um það. Ég varð var við að forseta Alþingis þætti þetta eðlileg tilhögun. Hæstv. forseti reifaði málið út frá því sjónarhorni en auðvitað með skýrum fyrirvara um að samkomulag þyrfti að vera um málið. Mér finnst þetta afar sérkennilegt og óheppilegt fyrir umræðuna í heild sinni.

Í þessu felast að sjálfsögðu ekki hótanir um eitt eða neitt og mér fannst hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ekkert bæta um með innleggi sínu hér áðan, talandi um að önnur mál en mál hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar hafi komið svo seint fram að menn hafi ekki getað kynnt sér þau. Það er alveg furðulegt af hálfu þingflokksformanns að orða hugsun sína svona úr þessum ræðustóli.

Málin væru ekki hér án afbrigða ef þau hefðu komið fram með óeðlilega stuttum fyrirvara. Þeim var öllum dreift hér á þriðjudagskvöld á útbýtingarfundi í Alþingi, samtímis. Hið sama gildir því um málin öll að þessu leyti.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Ég harma þessa afstöðu hæstv. ráðherra og finnst hún gera sjálfum sér verst með því að halda fast í skoðun sína en hún hefur til þess ótvíræðan rétt.