Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:53:08 (436)

1998-10-15 13:53:08# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Meginreglan er sú að frv. eru rædd hvert fyrir sig. Undantekning er sú að frumvörp séu rædd saman þannig að hæstv. ráðherra í sjálfu sér skuldar enga skýringu á því að hæstv. ráðherra kýs að fylgja reglunni en ekki undantekningunni.

Hvenær veita menn helst undanþágu frá reglunni? Það er þegar mál eru samkynja, sama eðlis og styðja hvert annað. Undanþága er miklu síður veitt ef mál ganga þvert hvert á annað. Þannig að það er fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt af hálfu ráðherrans að óska eftir því að reglunni verði fylgt en ekki undantekningunni.