Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:15:52 (450)

1998-10-15 16:15:52# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér fór síðasti ræðumaður mikinn og dró upp afar dökka mynd af því að viðskiptaleg sjónarmið kæmu að þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þm. aðeins út í það. Hvað er svona slæmt við það að viðskiptaleg sjónarmið komi hér að? Er það ekki í lagi ef þróa á betri lyf, betri læknisþjónustu og betra heilbrigðiskerfi? Hvað er að því að á það sé litið út frá viðskiptalegum sjónarhóli? Er hv. þm. á móti einkafyrirtækjum og hlutafélögum sem bæta heilsuþjónustu í viðskiptalegum tilgangi? Hvað með lyfjafyrirtækið Pharmaco? Hvað með Össur hf. sem smíðar stoðtæki fyrir fjölda fólks erlendis og hér heima, á viðskiptalegum grunni? Er hv. þm. á móti því? Ég bara spyr.

Það að draga svona sterkt upp hve slæmt sé að ekki standi nákvæmlega hvað fara eigi í grunninn fellur um sjálft sig vegna þess að það verður ekki hægt að rekja upplýsingar til einstaklinganna í þessum grunni, þó að ég viti að hv. þm. trúi því ekki. Fyrir mitt leyti er mér nánast sama um hvað fer inn í þennan grunn af því að það verður ekki rakið til persónunnar. Ég hélt satt að segja að allt sem stæði í sjúkraskrám ætti að fara í grunninn en samkvæmt frv. og grg. á að hafa samráð við faglega stjórnendur sjúkrahúsa, lækna og fleiri um hvað fara skuli í hann svo það nýtist sem best.