Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:17:38 (451)

1998-10-15 16:17:38# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi persónugreinanlegar upplýsingar eða ekki ætti hv. þm. að fara betur yfir sviðið en mér sýnist hún hafa gert. Ég vísa til þess sem hér kom fram m.a. í ræðu hv. 9. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar, um það efni og ég hef vísað til sjónarmiða sem það varða og ekki meira um það.

Varðandi viðskiptalegar forsendur þessa máls er kannski ekki sambærilegt að tala um almenn fyrirtæki, lyfjafyrirtæki eins og hv. þm. nefndi og hins vegar gagnagrunn sem á að geyma heilsufarsupplýsingar um Íslendinga, látna, lifandi og óborna, og fá að nota þær upplýsingar í viðskiptalegum tilgangi. Grunn sem metinn er að verðmæti sem skiptir tugum milljóna og sumir nefna tugi milljarða eða hundruð milljarða. Ekki skal ég leggja neinn dóm á þær tölur en um þetta stendur málið af hálfu þeirra sem sækjast eftir yfirráðum yfir þessum gagnagrunni og þessum upplýsingum, til þess að ná tökum á þekkingu og upplýsingum sem verða svo verðmætar að þessar tölur eru nefndar í því samhengi.

Í því sambandi ætti hv. þm. að fara yfir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan sem hafnar því að m.a. tryggingafélög eigi að hafa aðgang að þessum grunni. Hins vegar stendur svart á hvítu í lýsingu deCODE-fyrirtækisins, Íslenskrar erfðagreiningar, að meðal viðskiptaaðila þeirra eigi að vera tryggingafélög. Þessu, að samþætta heilsufarsupplýsingar íslensku þjóðarinnar við hagsmuni einkafyrirtækis, vara ég við.