Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:30:58 (459)

1998-10-15 16:30:58# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það voru ekki mikil og stór tíðindi sem hæstv. ráðherra greindi hér frá. Ég var einmitt að rekja að boðað væri að hér kæmi frv. um lífsýni, lífsýnasöfn, og það er vissulega gott ef það liggur fyrir núna. Það hefur þá komið inn á borð á þessum degi. Einnig upplýsti hæstv. dómsmrh. að skammt væri í frv. varðandi skráningu persónuupplýsinga. Auðvitað á Alþingi að fara yfir þessi mál og ganga frá þeim málum áður en farið er að fjalla um, ég tala nú ekki um að afgreiða, það frv. sem hér liggur fyrir og taka það til afgreiðslu. Þessi frv. sem hæstv. ráðherra nefndi eiga að mynda bakgrunn umfjöllunar um mál af þeim toga sem við ræðum hér.

Varðandi stefnumótunina á heilbrigðissviði bið ég hæstv. ráðherra um að koma hér og greina okkur frá því hafi það verið áætlun í þeirri stefnumótun sem var lögð fyrir á síðasta ári að byggja upp miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði hérlendis. Ég les það ekki út úr þeirri stefnumótun heldur þvert á móti.