Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:32:52 (461)

1998-10-15 16:32:52# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er mjög gott að hæstv. ráðherra telur sig geta staðhæft að það hafi legið í tillögum þeirra fjölmörgu sem komu að samningu þeirrar stefnumörkunar á upplýsingasviði í heilbrigðismálum sem gefin var út í riti 1 1997. Ég sé ekki að þar sé gert ráð fyrir því að byggður verði upp miðlægur gagnabanki á heilbrigðissviði. Ég les það ekki út úr þeirri stefnumörkun heldur er því þvert á móti vísað frá að það verði gert. Það stendur vissulega með persónugreinanlegum gögnum en það er það sem við erum að fjalla um. Við erum að fjalla um frv. um gagnabanka þar sem persónugreinanleg gögn verða þó að hæstv. ráðherra kjósi að telja að svo sé ekki. Það er kannski sá þunni ís sem hæstv. ráðherra er að hætta sér út á og er ég hræddur um að eigi eftir að brotna undan hæstv. ráðherra.