Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:14:11 (464)

1998-10-15 17:14:11# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:14]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. ræddi mikið um persónuvernd og burt séð frá því hvort við erum sammála eða ósammála því hvort frv. tryggir persónuvernd, þá hef ég miklar áhyggjur af því hvaða upplýsingar verður hægt að kaupa út úr þessum grunni. Ekki upplýsingar sem tengjast einstaklingum heldur upplýsingar kannski um einstaka sjúkdóma, einstaka hópa o.s.frv. Í 10. gr. frv. segir um einkaleyfishafann eða rekstrarleyfishafann, með leyfi forseta:

,,Rekstrarleyfishafa er á leyfistíma heimil fjárhagsleg hagnýting upplýsinga úr gagnagrunninum með þeim skilyrðum sem sett eru í lögum þessum og í rekstrarleyfi.``

Spurningin er: Hver verða þessi skilyrði? Og enn og aftur: Hvaða upplýsingar verður hægt að kaupa út úr þessum grunni? Mér finnst þetta vera grundvallaratriði og þetta er það, eins og ég nefndi fyrr í dag, sem aðilar erlendis hafa mjög miklar áhyggjur af.