Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:17:52 (467)

1998-10-15 17:17:52# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:17]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu sinni áðan að þar sem um væri að ræða ópersónugreinanlegar upplýsingar þá félli krafan um upplýst samþykki um sjálfa sig. Ég verð að svara þessu. Þetta er rangt hjá hv. þm. Reynir Alfreðsson, læknir og erfðafræðingur, sagði m.a. um þetta á fundi:

,,Þótt Íslendingar séu gerðir ópersónugreinanlegir þá eru þeir áfram menn. Um rannsóknir á mönnum gilda sem betur fer strangar reglur sem eru m.a. byggðar á Helsinki-yfirlýsingunni og ýmsum siðareglum og alþjóðasáttmálum. Ein þeirra er sú að ætíð skuli krefjast upplýsts samþykkis þeirra sem upplýsingarnar stafa frá.``

Þingmaðurinn talaði um að þetta væri falskt öryggi. Með þessu mæla sömu rök og með því að allir þeir sem nota menn sem viðfangsefni í rannsóknum þurfi að fara í gegnum ákveðið öryggiskerfi. Þar á meðal er sú skylda að óska skuli eftir upplýstu samþykki frá því fólki sem upplýsingarnar stafa frá. Með frv. á að gera undanþágu frá þessu og það er alveg sama hvað við klæðum þetta í marga dulkóðunarbúninga. Við þurfum að gera þetta. Við þurfum að fara fram á upplýst samþykki og fylgja þeim almennu siðareglum sem fylgt hefur verið. Við komumst ekki fram hjá því.