Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:19:12 (468)

1998-10-15 17:19:12# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég færði þrenns konar rök fyrir því að ég tel upplýst samþykki ekki eiga við. Ég gæti bætt fjórðu rökunum við en ég held einfaldlega því fram að það sem hv. þm. sagði áðan sé rangt. Þær upplýsingar sem ég byggi þessar yrðingar mínar á eru komnar frá manni sem ekki aðeins hefur menntun í siðfræði heldur hefur starf af því að veita siðfræðilegar ráðleggingar til íslensku þjóðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að það mundi búa til falskt öryggi með því að gefa því þær upplýsingar sem við höfum núna um hvernig kynni að vera farið að því að nota gagnagrunninn, þá værum við að búa til falskt öryggi. Ég er þeirrar skoðunar að á þessu stigi sé einfaldlega ekki hægt að segja fyrir fram um eðli tiltekinna rannsókna eða hvaða möguleg óþægindi eða ávinning þær kynnu að hafa í för með sér. Ég held að ef við gæfum til kynna að við gætum sagt til um það þá værum við að búa til falska öryggiskennd. Fólk á að vita að það tekur áhættu með því að leggja gögn sín í þennan grunn.