Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:25:43 (474)

1998-10-15 17:25:43# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað á hv. þm. von á einu fyrirtæki. Hvers vegna? Vegna þess að forsrh. sagði við allan heiminn að hann ætti ekki að leita hingað í þessu skyni. Hann hefur sagt að Íslensk erfðagreining fái þennan einkarétt þannig að það er auðvitað eðlilegt að hv. þm. dragi þessa ályktun.

Ég er þeirrar skoðunar að samkeppni mundi draga hingað fyrirtæki og þetta yrði miklu öflugri iðnaður. Því miður óttast ég að þetta verði til þess að þau komi ekki. Við erum reyndar stödd í miðri byltingu í erfðafræðunum og engri vísindagrein í öllum heiminum fleygir jafnört fram og einmitt henni.

Hv. þm. gaf mér hins vegar færi á að mæla örfá orð á þeim tveimur mínútum sem ég hef hér, herra forseti, um útboð. Það er nefnilega ekki rétt hjá henni að það verði útboð. Það er nákvæmlega það sem mælt er fyrir um í þessu frv., að verði ekki. Ég tel líka að ef menn ætli að vera með einkarétt þá ætti að vera útboð. Ég er þeirrar skoðunar og held að þegar upp verður staðið muni menn komast að því að reglur um EES mæli svo fyrir. Þetta er einn af stórkostlegum göllum á þessu frv., og alveg rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér í dag, að þetta er sniðið í kringum eitt fyrirtæki. Ég held einfaldlega að það sé skammsýni af ríkisstjórninni að skilja ekki þá möguleika sem upp eru komnir í þessari grein. Ég held að frv. í þessari gerð komi í veg fyrir að hingað komi fleiri fyrirtæki á þessu sviði, því miður.