Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:27:28 (475)

1998-10-15 17:27:28# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um gagnagrunnsfrv. Þegar horft er til baka er alveg hægt að staðfesta að þetta er betra frv. en það sem við sáum í vor. Ég viðurkenni fúslega að það var gott að frv. fór ekki í gegn í vor. Það kom of bratt inn og vakti miklar athugasemdir fjölmargra aðila eins og lækna, hjúkrunarfræðinga, vísindamanna, tölvunefndar o.s.frv.

Gífurleg umræða hefur átt sér stað í sumar, sem betur fer. Við erum nú með nýtt frv. í höndunum. Í sumar kom jafnframt út frv. númer tvö og um það bárust um 40 umsagnir. Nú hefur verið tekið tillit til þeirra þannig að við erum með þriðja frv. í höndunum.

Í sumar og haust hafa verið haldnar fjölmargar ráðstefnur, fundir haldnir, mikil greinaskrif orðið um málið og segja má að sumir séu orðnir hálfleiðir á þessu máli, sumir meira að segja hundleiðir. Mig grunar að þjóðin sé orðin nokkuð þreytt á allri þessari umfjöllun en ég tel þó rétt að undirstrika það að hún hefur verið mjög brýn. Umræðan hefur tekið á sig margar skrýtnar myndir. Hún hefur mikið farið fram í fjölmiðlum og stundum hefur mér fundist hún líkjast einhvers konar burtreiðum þar sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er öðrum megin og Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélagsins, er hinum megin. Jafnframt hafa ýmsir mætir menn og konur tekist á og svolítið reynt að lítilsvirða hver annan. Tekist hefur verið á með ýmsum rökum, bæði góðum og slæmum og þetta líkist allt hálffurðulegum burtreiðum.

Á erlendum vettvangi hefur líka verið talsverð umfjöllun um þetta mál og hér dró hv. þm. Hjörleifur Guttormsson upp ýmis gögn um það og las upp úr þeim. Margt af því er örugglega ágætt en sumt er örugglega ekki rétt. Nýlega var meira að segja svo komið að erlendur fjölmiðill fjallaði um að forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefði boðið öllum þingmönnum í mat til þess að lobbíera fyrir þessu máli. Það er ekki rétt og ég heyri að hér kallar hver þingmaðurinn á fætur öðrum: Ekki ég! Sú er hér stendur hefur heldur ekki komist í slíkt matarboð. Ég auglýsi þá eftir því, þannig að það er ekki allt satt og rétt sem sett er á blað, hvorki hér á Íslandi né erlendis.

[17:30]

Helsta átakamálið í vor var þáttur persónuverndarinnar og ég hafði mestar áhyggjur af því í vor. Gerð var Gallup-könnun fyrir Íslenska erfðagreiningu í vor og niðurstaða hennar var nokkuð afgerandi varðandi þetta mál. Það kom fram að 82% svarenda voru fylgjandi því að gagnagrunnur á heilbrigðissviði yrði gerður. Það er mjög afgerandi stuðningur við þetta mál úti í þjóðfélaginu.

Þegar spurt var um aðgengi vísindamanna að heilsufarsupplýsingum var svarhlutfallið svipað, reyndar aðeins hærra, því að 92% sögðust vera tilbúnir til að veita vísindamönnum aðgengi að heilsufarsupplýsingum um sig sem ekki væri á neinn hátt hægt að tengja viðkomandi. Það er því alveg ljóst að Íslendingar eru mjög opnir og opinskáir og hlynntir því að taka þátt í rannsóknum og skilja gildi þeirra fyrir framþróun í læknisfræði, lyfjagerð og öðrum slíkum málum.

Helstu kostir þessa máls eru, eins og hefur komið fram hér áður, að hægt er að bæta heilsu manna með því að nota þennan miðlæga gagnagrunn. Það er hægt að laða hingað ungt og vel menntað fólk til starfa og það er hægt að gera heilbrigðiskerfið hagkvæmara. Það er hægt að spara til framtíðar. Það er hægt að fá betri heilbrigðisþjónustu fyrir sama fjármagn. Þetta er afar brýnt. Gagnagrunnurinn gefur okkur því má segja stórkostleg tækifæri til þess að bæta heilsu manna, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Þetta tækifæri á að nýta, annað væri ekki verjandi.

Ókostirnir við grunninn eru að það þarf miklar aðgerðir til þess að tryggja persónuverndina, en samkvæmt frv. er það gert og það eru helstu breytingarnar frá því í vor, þ.e. hvernig persónuverndin er styrkt. Það kemur fram í frv. að samkvæmt því á hlutverk tölvunefndar að vera mjög víðfeðmt. Í 5. gr. er skýrt sett fram að eitt af skilyrðunum fyrir rekstrarleyfi sé að tækni-, öryggis- og skipulagslýsing eigi að uppfylla kröfur tölvunefndar. Í 7. gr. segir að við meðferð skráa, annarra gagna og upplýsinga skuli fylgt þeim skilyrðum sem tölvunefnd metur nauðsynleg hverju sinni. Þar segir einnig að það eigi að dulkóða persónueinkenni í eina átt, þ.e. að ekki sé hægt að nota greiningarlykil til að rekja sig til baka.

En síðan segir í 2. mgr. 7. gr., með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd skal annast frekari dulkóðun persónuauðkenna og heilsufarsupplýsinga með þeim aðferðum sem hún telur`` --- ég undirstrika það --- sem hún telur tryggja persónuvernd best.``

Ég vil einnig draga það fram að í 12. gr. segir að tölvunefnd eigi að hafa eftirlit með öryggi gagna í grunninum, þ.e. að tölvunefnd á að vaka yfir öryggi gagna eftir að gögnin eru komin inn í grunninn þó að þau séu ópersónugreinanleg. Þarna fær tölvunefnd því mjög sterkt og mikið hlutverk.

Margítrekað hefur verið bent á í þessari umræðu að vegna smæðar okkar samfélags mætti rekja upplýsingar um fólk úr þessum grunni, þ.e. að það væri hægt að spyrja það ítrekað um ýmis einkenni sem væri hægt að rekja og finna út hvað ætti við hvern. En í 10. gr. frv. kemur fram að til þess að tryggja persónuvernd gagnvart þessu á að vera óheimilt að veita upplýsingar um einstaklinga úr grunninum og það á að tryggja með því að beita aðgangstakmörkunum þannig að ekki verður hægt að skoða einstaklinga eða lítinn hóp manna. Það verða því settar girðingar í grunninn. Það á ekki að vera hægt að rekja upplýsingar til einstaklinga úr honum.

Í vor þegar við ræddum þetta frv. í fyrsta sinn kom fram í viðtölum okkar í heilbrn. við tölvunefnd að þeir töldu þá að hægt væri að tryggja persónuverndina í gagnagrunninum. Það mundi hins vegar kosta mjög miklar aðgerðir og mikinn mannafla. Þeir skutu á einhverja tölu. Mig minnir að það hafi verið tugir manna sem áttu að sinna því eftirliti. Núna er búið að styrkja hlutverk tölvunefndar í frv. En það er alveg ljóst að samt verður að viðhafa mjög miklar aðgerðir og ég býst við því að tölvunefnd þurfi að kalla til erlenda ráðgjafa. Þetta er það flókið og stórt mál. Og tölvunefnd þarf að fá miklu betri aðstöðu heldur en hún hefur nú. Nú er að mig minnir hálf framkvæmdastjórastaða hjá tölvunefnd og þeir hafa nokkra eftirlitsmenn á sínum snærum þannig að hún er vanburðug til að sinna verkefninu eins og staðan er núna. Ég treysti því hins vegar að Þorgeir Örlygsson sem er formaður tölvunefndar og hans fólk í nefndinni geti tekist á við þetta risavaxna verkefni ef þau fá góða aðstöðu og góð skilyrði til að sinna því verkefni.

En yfir í annað mál. Hér hefur mjög verið gagnrýnt að það eigi að veita einkaleyfi. Það kom fram í andsvörum áðan. En það er mjög ankannalegt að hlusta á þær röksemdir þar sem það kostar svo mikið að setja upp þennan grunn að enginn mundi fara út í það nema tryggt væri að hann hefði einkarétt á þessari hugmynd. Annars kæmi enginn grunnur.

Ég vil líka benda á, vegna radda um að starfsleyfishafi eigi að borga hlut af væntanlegum gróða til íslenska ríkisins, nokkurs konar auðlindagjald, að gert er ráð fyrir því í 5. gr. að ráðherra geti bundið ýmis skilyrði, frekari skilyrði, fyrir veitingu rekstrarleyfis. Í grg. með 5. gr. kemur fram að þarna er átt við þann möguleika að samið verði um hlutdeild í hagnaði af starfrækslu grunnsins og það eigi að fara þá inn í heilbrigðiskerfið. Ég spyr: Hvað ef það verður tap? Varla fer íslenska ríkið að taka þátt í hluta af tapi. En ég tek undir það sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að það er spurning hvort ekki sé hægt að færa þessa klásúlu inn í sjálfan lagatextann. Er hægt að setja það í sjálfan lagatextann að við eigum að taka hlutdeild í hagnaði af þessu fyrirtæki? Það er spurning. Það getur verið að einhverjir annmarkar séu á því en mér finnst það skoðunar vert.

Það er hins vegar eitt sem ég átta mig ekki á í þessu frv. og vil deila því með ykkur og tel að við þurfum að fá svar við í heilbrn. þegar við förum að vinna málið. Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Að fengnu samþykki heilbrigðisstofnana eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna er rekstrarleyfishafa heimilt að fá upplýsingar, sem unnar eru úr sjúkraskrám, til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði.``

Þetta þýðir að það má ekki setja upplýsingar inn í grunninn nema læknir heimili það, sjálfstætt starfandi læknir heimili það.

Ég spyr: Segjum sem svo að læknir vilji ekki að sjúkraskrárnar hans, þ.e. frá hans sjúklingum, fari inn í grunninn en sjúklingurinn hans vilji það. Þetta gæti t.d. verið geðlæknir. Þeir eru mjög hræddir við þetta frv. (Gripið fram í.) Kynsjúkdómalæknir eða hvaða læknir sem er. En sjúklingurinn vill að upplýsingarnar fari inn í grunninn. Ég spyr: Hver er þá réttur sjúklingsins?

Tökum sem dæmi þetta fyrirtæki sem hér er margoft búið að minnast á, Íslenska erfðagreiningu, og segjum að einhver starfsmaður þar sé hjá lækni sem vilji ekki að upplýsingarnar um hann fari inn í grunninn en starfsmaðurinn vill það, telur þetta verkefni vera gott og vill vera með. Hvað á hann að gera?

Það væri svo sem hægt að svara því á þann veg: Jú, samkvæmt réttindum sjúklinga þá getur sjúklingur fengið afrit af sinni sjúkraskrá, mætt með þau ljósrit þangað sem innsláttur fer fram í gagnagrunninn og sagt: ,,Hér eru mínar upplýsingar. Nú vil ég að þetta fari inn í grunninn.`` Hins vegar er það ljóst að það á að uppfæra grunninn reglulega. Hann á að vera lifandi. Það á að bæta upplýsingum við. Þessi aðferð er því eiginlega óbærileg fyrir viðkomandi sjúkling af því að hann þyrfti þá alltaf að fara með nýjan og nýjan bunka þegar eitthvað kæmi upp á varðandi hans samskipti við heilbrigðiskerfið. Ég spyr því: Er ekki hægt að skoða það í heilbrn. að setja klásúlu inn í frv., koma með brtt., þar sem segir að vilji sjúklingur að upplýsingar um hann fari inn í gagnagrunninn þrátt fyrir að læknirinn hans vilji það ekki þá sé réttur sjúklingsins meiri og gögnin eigi að fara inn? Ég spyr: Er ekki rétt að koma slíkri breytingu inn í frv. þannig að réttur sjúklings sé meiri en réttur læknis í þessu tilviki?

Í 6. gr. er komið inn á nefnd sem á að hafa umsjón með gerð samninga, rekstrarleyfishafa annars vegar og heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna hins vegar. Ég tel að við í heilbrn. þurfum að skoða aðeins hvað slíkir samningar geta falið í sér. Í grg. frv. er einungis rætt um það hvaða gerð hugbúnaðar ætti að nota til að gæta samræmis við skráningu og að það ætti líka að skilgreina hvaða upplýsingar færu inn í grunninn í þessum samningum. En ég spyr: Geta þessir samningar milli rekstrarleyfishafa og heilbrigðisstofnunar t.d. eða sjálfstætt starfandi læknis, falið í sér einhvern tilflutning á fjármagni? Getur verið að í svona samningi geti t.d. staðið: Heilbrigðisstofnunin veitir þessu fyrirtæki aðgang að upplýsingunum ef það borgar x krónur? Ég spyr: Er meiningin að hafa eitthvað slíkt í samningunum? Ég held að við þurfum að skoða það í heilbrn. hvort svo sé.

Áðan kom fram hörð gagnrýni hjá formanni heilbrn. á það að í frv. er sagt að einungis þeir vísindamenn sem starfa hjá þeim aðilum sem eru að skrá inn í grunninn eigi að fá ódýran aðgang að grunninum í gegnum þessa aðgangsnefnd. Það var gagnrýnt og spurt: Af hverju ekki allir vísindamenn, af hverju ekki hinir? ,,Fjöldinn allur af vísindamönnum í háskólanum er útilokaður á þennan hátt``, var sagt.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, af því að þetta stakk mig líka þegar ég sá þetta fyrst, þá skilst mér að ef þarna stæði að allir íslenskir vísindamenn ættu að hafa aðgang í gegnum aðgangsnefndina á ódýran hátt þá væri það brot á EES-samningnum að taka Íslendingana svona sérstaklega út úr. Því væri eðlilegra að þarna stæði að allir vísindamenn ættu að hafa aðgang að þessum grunni með ódýrum hætti í gegnum aðgangsnefndina. En það rekst auðvitað á við tilgang grunnsins. Tilgangurinn er að sjálfsögðu að selja vísindamönnum aðgang að honum til þess að hann beri sig. Ég sé því þetta í því ljósi að annaðhvort verðum við að velja þann hóp úr sem getur fengið aðgang að grunninum í gegnum aðgangsnefndina, þ.e. fyrir vísindamenn sem starfa hjá þeim sem eru að vinna inn upplýsingar í grunninn, eða að hafa enga aðgangsnefnd. Ég sé ekki að um annað val sé að ræða.

Þó er hugsanlega til einhver þriðja leið til þess að koma þeim að sem nú vinna ekki hjá aðilum sem skrá inn í grunninn og þar er ég að hugsa um þá sem eru t.d. uppi í háskóla, að þeir gætu hugsanlega unnið sérstök verkefni t.d. fyrir sjúkrahúsin og verið þar á launaskrá við það. Þá eru þeir orðnir starfsmenn hjá þeim sem eru að skrá inn í grunninn og ættu þess vegna að fá aðgengi í gegnum þessa aðgangsnefnd með ódýrum hætti. Og þá mundi jafnt ganga yfir alla íslenska vísindamenn væntanlega.

Í 8. gr. frv. kemur fram að sjúklingur getur neitað því að upplýsingar um hann fari inn í gagnagrunninn. Ég tel eðlilegt að við skoðum í heilbrn. hvernig slíkt fer fram. Í frv. segir að landlæknir skuli sjá um að dulkóðuð skrá sé til yfir þá sem vilja ekki vera með í grunninum og þessi skrá eigi að vera aðgengileg þeim sem annast flutning upplýsinga í gagnagrunninn, svo sem tölvunefnd. En ég spyr: Hvernig er þetta í praxís? Segjum að ég vilji ekki að nein gögn um mig fari inn í gagnagrunninn. Ég tek það fram að ég mun vilja vera með, en tökum þetta sem dæmi. Verður þá mín sjúkraskrá lokuð? Verður hún merkt? Verður hún merkt á einhvern hátt, með einhverjum lit, sem lokuð skrá eða eitthvað slíkt? Eða verða upplýsingarnar skráðar en aðgengi þeirra að grunninum lokað? Mér skilst að vegna þess að upplýsingarnar eru á svo mörgum stöðum --- þær eru sumar á heilsugæslunni, aðrar á sjúkrahúsinu og svo einhvers staðar annars staðar, t.d. á Hólmavík þar sem viðkomandi var í fyrra í sumarfríi, lenti á heilsugæslunni o.s.frv. --- að þá eigi að loka fyrir aðgengi þessara upplýsinga hjá þeim sem vilja ekki vera með í gegnum kennitölurnar áður en dulkóðun fer fram.

[17:45]

Ég spyr: Hvar á að loka? Af því að ég held að þeir fáu einstaklingar sem ekki vilja vera með, (Gripið fram í: Þeir örfáu.) þeir örfáu einstaklingar sem ekki vilja vera með í gagnagrunninum vilji ekki einu sinni að skráin sé opnuð og neinn fari að slá inn, það sé enginn skrásetjari eða heilbrigðisstarfsmaður sem skrái. Ég held að þeir vilji ekki að neinn fari í skrána sína, að hún sé ekkert opnuð, bara alls ekki. Því tel ég að við eigum að skoða það nákvæmlega í praxís hvernig þessi lokun fer fram. Er ekki eðlilegt að skráin sé merkt og þá er ekki nóg að merkja eina skrá á einum stað heldur margar skrár á mörgum stöðum þannig að þetta er nokkuð flókið mál.

Ég vil líka taka fram af því að um það var talað áðan að vísindasamfélagið væri nokkuð neikvætt gagnvart þessum gagnagrunni að ég tel að það sé ekki alveg rétt. Við fengum núna í október 1998 bréf frá Einari Stefánssyni prófessor og þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ég sendi yður hér með umsögn 15 prófessora og dósenta við læknadeild Háskóla Íslands um gagnsemi miðlægs gagnagrunns. Þessir umsagnaraðilar hafa umtalsverða reynslu af faraldsfræðilegum og erfðafræðilegum rannsóknum sem byggja í mörgum tilvikum á samslætti gagnagrunna enda þótt þeir séu ekki eins stórir í sniðum og rætt er um í frumvarpsdrögum ráðuneytisins. Í umsögninni kemur fram að þessir vísindamenn telja kosti miðlægs gagnagrunns mikla til eflingar læknisfærði og lækninga en áhættuna takmarkaða. Hópurinn lýsir sig reiðubúinn til að starfa með stjórnvöldum til að gera frv. um miðlægan gagnagrunn eins vel úr garði og frekast er kostur.``

Undir þetta ritar fyrir hönd hópsins Einar Stefánsson prófessor.

Undir þetta skrifa 15 prófessorar og dósentar við læknadeild háskólans og ég ætla ekki að lesa nöfn þeirra upp. En það er alveg ljóst að í vor voru nánast allir á móti frv. sem höfðu einhverra hagsmuna að gæta. Læknasamfélagið, vísindasamfélagið og fjölmargir aðrir aðilar sem hafa komið til okkar í heilbrigðisnefndinni voru með miklar efasemdir um gagnsemi frv.

Nú er staðan önnur. Ég er ekki að segja að hún sé algóð. Afstaðan er klofin. (Gripið fram í.) Núna er greinilega klofin afstaða innan vísindasamfélagsins eins og ég var að lesa upp áðan og það er líka klofin afstaða innan Læknafélagsins. Þeir héldu aðalfund sinn um daginn og vegna þess að hópurinn var ekki samstiga í skoðunum sínum á þessu frv. tóku þeir þann kost að fresta aðalfundi sínum meðan þeir skoða málið betur. Ég tel því að þessir hópar séu núna vonandi að upplifa meira gagnsemi miðlægs gagnagrunns.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka það fram að ég tel uppsetningu á miðlægum gagnagrunni vera mjög spennandi og ögrandi verkefni fyrir okkur Íslendinga. Ég held að með honum getum við hjálpað fólki til bættrar heilsu með okkar sérstöðu. Sérstaða okkar er mjög eftirsótt í heimi nútímavísinda og okkur ber skylda til þess að gera mönnum mögulegt að nýta hana, þær upplýsingar sem við höfum, öllu mannkyninu til heilla.