Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 10:30:19 (496)

1998-10-16 10:30:19# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[10:30]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu hefur fengið mikla gagnrýni og reyndar hlotið líka mikla umræðu sem er af hinu góða. Í markmiðsgrein laganna segir að markmiðið með þessum lögum sé að heimila gerð og starfrækslu miðlægs gagnagrunns með ópersónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum í þeim tilgangi að auka þekkingu til þess að bæta heilsu og efla heilbrigðisþjónustu.

Ekki hefur aðeins verið efast um að þetta markmið frv. nái tilgangi sínum með því að gera þennan miðlæga gagnagrunn heldur hefur einnig verið bent á ýmis atriði sem séu ógnvænleg ef þessi hugmynd ríkisstjórnarinnar verður að veruleika.

Kannski má skipta þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á frv. aðallega í þrennt: Í fyrsta lagi hvort persónuverndin sé nægilega trygg. Athygli hefur verið vakin á því að heilsufarsupplýsingar séu viðkvæmar persónuupplýsingar en mótrök þeirra sem styðja frv. eru þau að þarna séu einstaklingar ekki persónugreinanlegir og á þeim fúnu stoðum vil ég segja hvílir öll smíði ríkisstjórnarinnar í málinu. Menn viðurkenna að ef hægt er að hrekja þá staðhæfingu að einstaklingar þarna inni séu ekki persónugreinanlegir, þá er allt hugverkið hrunið þannig að mikið veltur á þessari röksemd í málinu. Þessi röksemd er það sem skiptir öllu máli. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur alls ekki verið sýnt óyggjandi fram á að þarna sé um að ræða ópersónugreinanlegar upplýsingar. Menn greinir á um hvort þessi skilgreining standist alþjóðasamþykktir sem við erum skuldbundin af. Bent hefur verið á að fámennið eitt geri það að verkum að mjög erfitt sé að fela einstaklinga úr svo litlum hópi eins og íslenska þjóðin er, 270 þúsund manna hópi, vegna þess að þar sé mjög auðvelt að leita uppi fólk ef hægt er að finna einn lykil sem stendur fyrir eitthvert ákveðið sérkenni sem menn hafa.

Auk þess hefur verið vakin athygli á því að allt þetta hugverk um að einstaklingar séu ekki persónugreinanlegir byggist á því að dulkóðunin sé örugg, ekki sé hægt að rekja upplýsingarnar til baka. Mjög margir sérfræðingar á sviði tölvuverndar og á sviði dulkóðunar og því sem að henni snýr hafa bent á að engin dulkóðun sé það örugg að hún geti örugglega staðist 100%. Við getum haft hana nokkuð örugga en aldrei sé hægt að segja að hún geti verið það örugg að aldrei verði mögulegt að brjóta hana. Sem sagt, engin dulkóðun er það örugg að hana megi ekki með mikilli fyrirhöfn og hugsanlega miklum fjármunum brjóta niður.

Við vitum að tölvutækninni hefur fleygt gífurlega fram á undanförnum árum og áratugum og ég velti því líka fyrir mér hve mikið við vitum um það hvort eftir eitt ár, fimm ár eða tíu ár verði ekki til tækni til að brjóta það dulkóðunarkerfi sem þetta hugverk er allt saman byggt á og hver ætlar þá að bæta tjónið sem af því hlýst ef það gerist? Ekki hefur verið sýnt fram á það. Það má líka færa fyrir því rök að áhættan með miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði með heilsufarsupplýsingum sé einfaldlega of mikil til þess að við eigum að taka hana og ég mun fara nánar inn á það hér á eftir.

Hvað persónuverndina snertir hefur líka verið komið inn á það að frv. geti hugsanlega ógnað friðhelgi einkalífs. Það er umræðan um það hver eigi upplýsingarnar. Er ríkisstjórninni yfirleitt heimilt að afhenda þessar upplýsingar á þann hátt sem gert er? Þá hefur komið inn í umræðuna það sem er kallað upplýst og óþvingað samþykki og menn deildu svolítið um í umræðunum í gær hvort ætti rétt á sér í þessu tilviki og um það eru menn heldur ekki á einu máli.

Ég vil aðeins nefna hvað varðar upplýst samþykki að vitnað var í umræðunum í gær í heimspeking sem öllum er ljóst að heitir Vilhjálmur Árnason þó að nafn hans hafi sennilega ekki verið nefnt og vitnað var í það sem hann átti að hafa sagt á ráðstefnu hjá háskólanum um þetta mál um helgina. Ég átti þess því miður ekki kost að sitja þá ráðstefnu en vitnað var til þess að hann hefði sagt að það væri ekki unnt að nota upplýst óþvingað samþykki í þessu tilviki, það væri bara ekki fræðilega mögulegt. Án þess að ég vilji vitna í mann sem er fjarstaddur og ég tel það reyndar óviðeigandi þar sem er verið að vitna í einhver munnleg ummæli sem geta verið dregin úr samhengi þá get ég ímyndað mér að það sem Vilhjálmur hafi átt við þarna sé það að meðan frv. er eins úr garði gert og það er í dag, óljóst sé hvaða upplýsingar fara í grunninn og til hvers eigi að nota þær, þá geti aldrei verið um að ræða það sem heitir upplýst óþvingað samþykki. Mér er reyndar sagt það af þeim sem sátu þarna að hann hafi talað um að vekja máls á virðingu fyrir hugtakinu upplýst óþvingað samþykki, í því felist ákveðin skilyrði um að það þurfi að vera hægt að gera fólki grein fyrir því hvað það er að samþykkja og það sé ekki hægt í þessu tilviki. Ég viðurkenni að þetta eru alveg frambærileg rök inn í umræðuna. En ég vil ekki kaupa það að með því séum við að segja að við eigum að minnka kröfurnar sem við gerum eins og gert er með þessu frv. með því að við á hinu háa Alþingi gefum stimpil okkar á að heimila að setja þessar upplýsingar þarna inn og þær séu notaðar án þess að fyrir liggi hvaða upplýsingar á að setja inn og í hvaða tilgangi eigi að nota þær vegna þess að það er óljóst samkvæmt þessu frv. og þá er ég bara að horfa á frv. sjálft. Því miður hafa ýmis gögn og ýmis rök verið dregin inn í umræðuna sem standa ekki í þessu frv. og ég minni alþingismenn á að það sem við erum að taka afstöðu til er þetta frv. þótt vissulega geti önnur gögn verið til skýringar. Frv. er mjög óljóst hvað það varðar hvað eigi að fara inn í grunninn og til hvers eigi að nota það.

Efnahagsleg rök hafa verið færð fram gegn þessu frv. Er verjandi að veita einu fyrirtæki sérleyfi á gerð og starfrækslu gagnagrunns án þess að fram fari útboð þar um og án þess að öðrum sé heimilt að koma þar að og gera tilboð? Þarna er ég að gera ráð fyrir því að við viðurkennum að við eigum að fara út í þessa hugmynd. Er réttlætanlegt að gera það á þennan hátt? Sú aðferð sem ríkisstjórnin leggur þarna til tryggir ekki hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina vegna þess að ekki er leitað eftir hagkvæmasta kostinum í þessu tilviki heldur er ákveðið fyrir fram að eitt tiltekið fyrirtæki eigi að fá þetta og það er algerlega án tillits til þess hvað aðrir eigi að gera í þessum efnum.

Í sambandi við einkaleyfið vil ég vitna í rit sem heitir Vísbending og það hefur frekar verið þekkt fyrir það að styðja ríkisstjórnina í því sem hún er að gera á þessum sviðum hvað varðar frjálsa samkeppni. Það er svolítið broslegt að sjá kúvendingu ríkisstjórnarinnar og talsmanna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem hafa lengi stuðlað að því að efla frjálsa samkeppni og hafa verið gegn einokun í hverjum mæli sem hún hefur verið. Í Vísbendingu segir um þetta efni, með leyfi forseta:

,,Einkaleyfið verður ókeypis. Forráðamaður Íslenskrar erfðagreiningar segir einkaleyfið grundvallaratriði. Það er ótrúlegt að menn sem ættu að vera í fararbroddi gegn einokun styðji slíkt leyfi. Jafnvel sumir sem berjast fyrir veiðigjaldi sjá ekki líkinguna við sameign þjóðarinnar. Þjóðerniskennd ræður vart því að fyrirtækið mun í meirihlutaeign erlendra aðila og forráðamaðurinn ekki með lögheimili hérlendis. Leysi menn siðferðisvandann ætti að selja þessar upplýsingar hæstbjóðanda. Markaðurinn getur leyst það hvort hærra verð fengist fyrir einkaleyfi eða tímabundinn aðgang. Það verður hins vegar að heyra sögunni til að einkaaðilum séu færð sérleyfi á silfurfati án þess að aðrir komist þar að.``

Mér þótti gagnrýni Vísbendingar athyglisverð og satt best að segja verð ég að viðurkenna að ég hafði sjálf undrast yfir því að menn skyldu þegjandi og hljóðalaust samþykkja þá aðferð sem hefur verið notuð í tengslum við frv. Ákveðið er fyrir fram hvaða fyrirtæki eigi að fá góssið og því er afhent það og búin til lagaumgjörð í kringum það og ég tel það vera mjög ámælisvert eins og að því hefur verið staðið.

Í þriðja lagi má kannski tala um það sem eru vísindaleg rök og eru alls ekki þau sístu þó að ég nefni þau síðust. Í mínum huga er algerlega augljóst að sérleyfi eins og það er kynnt í frv. heldur öðrum niðri sem starfa á sama sviði. Annars væri sérleyfið einskis virði ef það væri ekki til þess að halda öðrum frá til þess að vernda hagsmuni sérleyfishafa gagnvart öðrum sem eru á sama sviði. Talað er um í greininni að aðgengi annarra vísindamanna að upplýsingum úr gagnagrunninum sé heimil enda sé ekki um að ræða rannsókn sem fyrirsjáanlegt er að mati nefndarinnar sem á að fjalla um það að skerði viðskiptahagsmuni rekstrarleyfishafa og það hljóta þá að vera allir þeir sem eru í svipuðum rannsóknum og rekstrarleyfishafi er í og það er reyndar ekki nánar skilgreint frekar en svo margt annað í þessu frv.

Vísindafrelsinu er ógnað með frv. að því leytinu til að þarna er verið að veita einum aðila ákveðinn forgang umfram aðra. Ég vitna í bréf frá 21. apríl 1998 þar sem undir skrifa Helga Ögmundsdóttir, yfirlæknir á rannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins í sameinda- og frumulíffræði og dósent við læknadeild háskólans, og Jórunn Erla Eyfjörð erfðafræðingur á sama stað. Þær segja í þessu bréfi sem er til alþingismanna að þær hafi verulegar áhyggjur af því að frv. geti haft neikvæð áhrif á starfsemi þeirra sem stundað hafa sjálfstæðar rannsóknir í læknisfræði og erfðafræði á Íslandi undanfarin ár. Þær segja, með leyfi forseta:

,,Margar þessara rannsókna byggjast á söfnun læknisfræðilegra upplýsinga. Það er ljóst að veiting einkaleyfis til söfnunar slíkra upplýsinga gætu orðið til að takmarka rannsóknir þeirra sem vilja vinna óháð leyfishafanum. Veiting einkaleyfis á notkun gagnagrunns um heila þjóð stangast einnig á við almenna vísindasiðfræði. Það er misskilningur að um ónýtta auðlind sé að ræða og því sé það einungis til góðs að veita einum aðila einkaleyfi.``

Þær benda á það að á síðustu 10 árum hafi verið byggð upp rannsóknarstofa hjá Krabbameinsfélaginu sem hafi fengið talsverða alþjóðlega viðurkenningu og umfjöllun vegna rannsókna á brjóstakrabbameini. Þær rannsóknir hafa átt stóran þátt í því að einangrað var áhættugen fyrir brjóstakrabbamein og eftir þessar konur hafa birst tugir greina, margar hverjar í mjög virtum tímaritum.

Þær benda á að þessar rannsóknir hafi m.a. verið fjármagnaðar með erlendum styrkjum. ,,Slíkar styrkveitingar byggjast á trausti á vinnubrögðum okkar og vitneskjunni um aðgang okkar að einstökum upplýsingum og efnivið til rannsókna.``

Síðan segir það sem mér þykir vera full ástæða til að gefa gaum að:

,,Við höfum rökstuddan grun um að vinnu okkar sé stefnt í mikla hættu og miklu erfiðara verði að sækja fjármagn, eins og við höfum gert hingað til, ef starfsemi okkar verður háð leyfi samkeppnisaðila.``

Ég verð að segja það að í mínum huga er algerlega augljóst að bara tilvist þessa miðlæga gagnagrunns, sem einn tiltekinn aðili hefur rekstrarleyfi að, hefur sérleyfi á og hefur ákveðið forskot umfram aðra, hlýtur að gera það fýsilegra fyrir erlenda hugsanlega samstarfsaðila og aðila sem mundu hugsanlega styrkja slíkar rannsóknir. Og eins og þær eru kannski að benda á í bréfinu, Þórunn Eyfjörð og Helga Ögmundsdóttir, hlýtur vissulega að vera fýsilegra fyrir slíka menn að fjárfesta í fyrirtækinu sem hefur sérleyfi. Verið er að færa þessu fyrirtæki ansi mikið umfram aðra og það gerir öðrum erfiðara fyrir um að fjármagna rannsóknir sínar með styrkjum eins og gert hefur verið hingað til. Allt tal og allar fullyrðingar um það eins og hafa heyrst í umræðunni að þetta megi á engan hátt skerða vísindafrelsi eða möguleika annarra til að nýta sér upplýsingar til að stunda rannsóknir sínar þykir mér fráleitt og ég spyr þá bara: Hvað eru fjárfestarnir, sem fjárfesta í Íslenskri erfðagreiningu og eru tilbúnir að leggja í það alla þessa milljarða, þá að kaupa?

[10:45]

Í bréfi Jórunnar Eyfjörð og Helgu Ögmundsdóttur er einnig bent á það að átt hafi sér stað mikil umræða að undanförnu, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, um siðfræði lífvísinda og að umræðan hafi einkennst af áherslu á rétt sjúklings til að hafa áhrif á notkun upplýsinga sem hann hefur gefið í lækningaskyni. Þær benda á að samþykkt hafi verið hér lög um réttindi sjúklinga. Þá var m.a. tekin afstaða til þess á Alþingi og Alþingi komst að þeirri niðurstöðu að sjúklingar ættu upplýsingarnar og það er reyndar líka athyglisvert innlegg inn í umræðuna. Það má því spyrja: Hver á upplýsingarnar og hver hefur heimild til að ráðstafa þeim?

Síðan benda þær á að frv. stangist í verulegum atriðum á við þessi lög og að við meðhöndlun persónu- og heilsufarsupplýsinga skipti trúnaður meginmáli. Þær hvetja til þess að Alþingi bregði ekki með þessu frv. fæti fyrir þá vísindastarfsemi sem fyrir er í landinu og brjóti niður það traust sem byggt hefur verið upp á milli sjúklinga og heilbrigðisstofnana og á milli almennings og vísindamanna.

Það bréf sem ég vitna í er ekkert einsdæmi. Það er ekkert einsdæmi um skoðun vísindamanna og þeirra sem hafa unnið með heilbrigðisupplýsingar á hinum ýmsu sviðum, hvort sem það hefur snert persónuverndina, hvort sem það eru læknar, erfðafræðingar eða hvað sem við nefnum. Fólk sem starfar uppi í háskóla og hefur unnið við rannsóknir er meira og minna mjög ósátt við þetta frv. Einhver dæmi eru um annað en mikill meiri hluti fólks sem hefur unnið í tengslum við þessi mál virðist vera á móti þessu. Ég kaupi það nú ekki, eins og látið hefur verið að liggja í umræðunni, að það sé af tómri öfund og vegna þess að frv. ógni hagsmunum þeirra. Ég kaupi ekki slík rök að það sé ástæðan fyrir mótmælum þeirra.

Á það hefur líka verið bent, og ég vil taka undir það, að aðrar leiðir hafa ekki verið skoðaðar nægilega vel í þessu frv. Aðrar leiðir hafa allar verið ræddar í skugga þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að því er virðist vegna þess að ég skil það þannig að búið sé að taka ákvörðun um að veita þessu tiltekna fyrirtæki þetta sérleyfi. Þó að ekki hafi verið tekið fram í samningi sem þetta fyrirtæki gerði t.d. við stórt erlent lyfjafyrirtæki að svo væri --- enda þykir það nú vart viðeigandi vegna þess að Alþingi á eftir að veita samþykki sitt --- þá var hæstv. forsrh. viðstaddur undirritun þessa stóra samnings. Stimpill ríkisstjórnarinnar var því greinilega á þessum samningi. Ég tel það bara staðfesta að það sem hefur verið talað um og m.a. kynnt af forsvarsmönnum fyrirtækisins, að fyrir lægju þreifingar við ríkisstjórnina um að koma á miðlægum gagnagrunni, væri rétt, það væri staðfesting þess. Ég gat ekki skilið nærveru hæstv. forsrh. við undirritun samningsins öðruvísi en að svo væri.

Þá hefur líka verið bent á það, bæði af aðilum heima og eins erlendis, að hugsanlega feli frv. í sér brot á ýmsum alþjóðasáttmálum auk þess sem það sé siðferðilega óverjandi.

Ég kem þá aftur að því sem snertir vísindafrelsið og aðstöðu annarra vísindamanna gagnvart þessum sérleyfishafa. Ég bendi t.d. á að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir því að í þeirri nefnd sem á að fjalla um aðgang annarra vísindamanna og ákveða hvort aðrir vísindamenn fái að komast þarna að, á einn nefndarmanna að vera skipaður af rekstrarleyfishafa. Öðrum vísindamönnum er sem sagt boðið upp á að leggja fyrir þessa nefnd hugmyndir sínar og þar situr einn af fulltrúum rekstrarleyfishafa sem getur þá væntanlega greint rekstrarleyfishafa frá því hvaða hugmyndir aðrir vísindamenn eru með og að hvaða hugmyndum þeir séu að vinna. Þetta er bara til að benda á hve fráleit staða annarra vísindamanna er gagnvart þessum sérleyfishafa, þessu óskabarni ríkisstjórnarinnar.

Faghópar erlendis frá hafa einnig varað við frv. Á það var bent í umræðunum í gær að komið hefði viðvörun til dómsmrh. frá Evrópunefnd um persónuvernd sem í sitja allir helstu sérfræðingar Evrópu á þessu sviði hvað varðar persónuvernd. Þeir vöruðu mjög við því að þarna væri ekki nægilega vel staðið að persónuverndinni. Borist hafa bréf og ábendingar frá samtökum norrænna lækna og frá fjölmörgum sérfræðingum bæði á sviði heilbrigðisvísinda og eins á sviði persónuverndar. Við hljótum að hlusta á þessi rök líka í umræðunni. Ég trúi því ekki að allt hið alþjóðlega vísindasamfélag sé líka bara öfundsjúkt út í sérleyfishafa og það sem ríkisstjórnin ætlar að veita honum. Ég verð að efast stórlega um það.

Ég hef skoðað þetta mál nokkuð vel og sérstaklega eftir að þessi síðasta útgáfa frv. kom út hef ég reynt að skilja út á hvað þessi hugmynd gengur. Ég hef skoðað frv. sjálft sem er náttúrlega fyrst og fremst það sem við þingmenn verðum að byggja afstöðu okkar á. Ég hef skoðað það sem fyrirtækið, sem á að vera hið útvalda fyrirtæki sem væntanlega verður sérleyfishafi, hefur sent frá sér til fjárfesta sinna um það hvaða hugmyndir þeir eru að selja fjárfestum sínum til að fá þá til að fjárfesta í fyrirtækinu. Svo hef ég náttúrlega skoðað grg. með frv. og þannig reynt að átta mig á því hvert sé raunverulegt viðfangsefni þessa frv., vegna þess að mér þykir það mjög óljóst eins og frv. liggur fyrir, og kannski ekki síður hver sé ávinningurinn, hvað geri það að verkum að fjárfestar séu tilbúnir að leggja í þetta gríðarlega mikla fjármuni. Eftir því sem ég skoða þetta betur og reyni að tengja þetta saman verður myndin einhvern veginn óskýrari. Ég verð að segja það. Þá erum við ekki að tala um þetta með persónuverndina, þá fúnu stoð sem ég vil segja að öll þessi hugverkasmíði byggi á.

Okkur er sagt að inn í heilsufarsupplýsingagrunninn fari bara tölur. Það sem stendur í upplýsingum til fjárfesta er um sérstöðu fyrirtækisins og þær einstöku aðstæður, sem eru að mörgu leyti á Íslandi og við höfum öll heyrt í umræðunni um einsleitni þjóðarinnar, og er það sem notað er til að laða að fjárfesta. Enn fremur að hér sé einstaklega vel haldið til haga heilsufarsupplýsingum, hér sé einstök skráning ættfræði og ætta landsmanna langt aftur í aldir og síðan er bent á að hér sé líka til alveg einstakt lífsýnasafn.

Ættfræðiupplýsingarnar og öll sú umfjöllun er ekki lengur til umfjöllunar í þessu frv. þannig að ég geri ráð fyrir því að það sé litið svo á að heimilt sé að safna þeim upplýsingum sem fyrirtækið er að safna um ættfræðina og ég hef m.a. lesið um í greinum þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins greina frá því að þeir séu búnir að vera að skrá þessar upplýsingar um ættir allra landsmanna langt aftur í aldir. Þær upplýsingar eru að því er mér skilst --- og ég hef séð mynd á tölvuskjá þar sem stendur ,,leit að einstaklingi`` og það er allt saman undir nafni og hægt að fá fram ættartrén eins og þau eru.

Hvað varðar heilsufarsupplýsingarnar er okkur sagt að bara eigi að setja inn tölur þannig að aldrei verði hægt að rekja þetta til einstaklinga. Ekki er gert ráð fyrir að frv. nái til lífsýna. Ekki er hægt að rekja þetta til baka til einstaklinga, eins og var dregið fram í umræðunni í gær, sem þýðir að ekki er hægt að nota þessar upplýsingar til að vara einstaklinga við ef þeir eru haldnir hættulegum sjúkdómum eða taka þá inn í einhverja læknismeðferð. Ég verð að segja eins og er að þetta allt saman stenst ekki vegna þess að í upplýsingum til fjárfesta sé ég ekki betur en að gert sé ráð fyrir að það sé einmitt hægt að krosskeyra þessi gögn á alla kanta. Lífsýnin, sem samkvæmt frv. sem nú liggur fyrir frá hæstv. heilbrrh. er litið á sem persónuupplýsingar, eru öll persónutengd og það þarf að leita eftir upplýstu samþykki til þeirra sem eiga þau. Ég sé því ekki að þetta stemmi, þ.e. annars vegar frv. eins og það hljóðar nú og miðað við þær skýringar sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið á frv. og út á hvað þessi hugmynd gangi, og hins vegar það sem stendur í upplýsingum til fjárfesta. Eitthvað í þessu gengur hreinlega ekki upp, herra forseti.

Ég spyr líka, og þá brestur mig kannski skilning til að átta mig á því þar sem ég hef ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði: Ef það á að keyra þetta þrennt saman, er persónuverndin þá tryggð? Ef ekki á að keyra þetta saman, hvert er þá verðmætið í þessu dæmi fyrir Íslenska erfðagreiningu eða fjárfesta? Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því enn þá og ég vona að einhver geti útskýrt það í umræðunum á eftir. Þegar upp er staðið sé ég ekki neina glóru í þessu máli fyrir nokkurn mann, þeim mun betur sem ég skoða þetta mál.

Ég vil líka spyrja: Eigum við að taka þá áhættu sem felst í því að gera miðlægan gagnagrunn? Við verðum líka að athuga það að við erum ekki aðeins að taka áhættu fyrir okkur heldur líka fyrir niðja okkar. Á það hefur verið bent að engin dulkóðun sé svo örugg að ekki sé hægt að brjóta hana. Í ljósi þess að tölvutækni fleygir fram og í ljósi þess að tjónið verður óbætanlegt ef --- ef það gerist einhvern tíma að hægt er að brjóta kóðann.

Í viðtali við Læknablaðið fullyrðir Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir að áhættan sem sjúklingum stafi af miðlægum gagnagrunni á heilbrigiðssviði sé meiri en hugsanlegur ávinningur af honum og reyndar hefur Geðhjálp varað mjög við því að þetta verði framkvæmt og bent á að persónuverndin sé ekki nægilega trygg þrátt fyrir alla kóða. Ólafur segir í þessu viðtali að hann sé sannfærður um að slíkur upplýsingabanki mundi innihalda ómetanlegar upplýsingar en niðurstöður rannsókna sem unnar yrðu eftir úr gögnum úr honum yrðu undir áhrifum kaupandans og nýttar samkvæmt óskum hans. Hann bendir á í þessu viðtali að tilgangur læknavísinda sé fyrst og fremst sá að verða sjúklingum að gagni og það hafi ekki tíðkast að hefta aðgang að niðurstöðum. Þvert á móti sé tilgangur vísindanna að sem flestir njóti afrakstursins og sem fyrst. Hann reyndar efast líka um sérleyfið í sjálfu sér.

En hvað er það sem gerir þessa hugmynd um miðlægan gagnagrunn betri, umfram t.d. dreifða gagnagrunna, sem t.d. ég og margir fleiri telja að sé miklu vænlegra? Hvað er það sem gerir þá í sjálfu sér eitthvað hættulegri eins og bent hefur verið á? Nú koma oft fram þau rök að þessar upplýsingar liggi alls staðar fyrir og það sé jafnmikil hætta í dag og verði eftir tilkomu miðlægs gagnagrunns að þessar upplýsingar liggi einhvern tíma frammi.

Í þessu sama Læknablaði er grein eftir Þorgeir Örlygsson, sem er helsti sérfræðingur okkar á sviði persónuverndar í lögfræði. Þorgeir er jafnframt formaður tölvunefndar og ég treysti honum best Íslendinga til að kenna mér eitthvað um það sem snýr að persónuvernd á sviði lögfræði. Hann segir m.a. að miðlægir gagnagrunnar séu ,,taldir varhugaverðir vegna þeirrar hættu sem getur verið samfara stofnun þeirra og starfrækslu. Er því ákveðin tilhneiging í löggjöf til þess að sporna við myndun þeirra og byggja á því sem grundvallarreglu að viðkvæmar persónuupplýsingar beri að varðveita þar sem þær verða til og að þær beri fyrst og fremst að hagnýta í þeim tilgangi sem var upphaflegur með söfnun þeirra og skráningu.``

Þetta er eitt lykilatriði. Þó að við gerum þetta kóðað fram og til baka þá er grundvöllurinn að þessu viðkvæmar persónuupplýsingar. Síðan segir hann:

,,Miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði er annars eðlis en sakaskráin.`` --- Hann var að bera þetta saman við sakaskrána. --- ,,Hann tengir saman upplýsingar sem til verða annars staðar og í ákveðnum tilgangi, sem yfirleitt tengist þjónustu við þá einstaklinga sem upplýsingarnar varða, og myndar úr þeim einn allsherjargagnagrunn. Hann gerir það kleift að kortleggja einstaklinginn, það er að ná fram ákveðinni heildarmynd af þeim einstaklingum sem skráningin nær til, heildarmynd sem viðkomandi gat alls ekki átt von á að hægt væri að ná fram þegar hann gaf upplýsingarnar á hinum mismunandi stöðum.``

Síðan segir: ,,Það er og hefur lengi verið eitt helsta meginmarkmið vestrænnar löggjafar um persónuvernd að sporna við því að hægt sé að ná fram slíkri heildarmynd af þegnum þjóðfélagsins. Það er gert með því að banna í lögum samtengingu viðkvæmra persónuupplýsinga, nema í algjörum undantekningartilvikum og að undangengnu umfangsmiklu hagsmunamati, þar sem aðaláherslan liggur á því að tryggja að einstaklingshagsmunir séu ekki fyrir borð bornir.``

[11:00]

Mér þótti ástæða til að draga þetta sérstaklega fram vegna þess að ég heyri allt of oft þau rök til varnar þessari hugmynd að upplýsingarnar séu hvort sem er alls staðar til og ekkert mál að fá þær. En í allri umfjöllun, lagasmíð og í öllum alþjóðasáttmálum eru það viðurkennd rök að persónuverndinni stafi meiri ógn af miðlægum grunnum en dreifðum grunnum.

Segja má að ýmislegt hafi skilað sér í þessari umfjöllun frá því í vor og hefur kannski sannast að sú umræða sem hefur átt sér stað í sumar er mjög mikilvæg. Ég held þó að enn skorti töluvert á. Við eigum eftir að fá svör við ákveðnum spurningum, við byggjum þetta frv. á allt of fúnum stoðum og höfum ekki gefið öðrum hugmyndum nægilegan gaum.

Eins er full ástæða til að gjalda varhug við og hlusta á þær ábendingar sem komið hafa frá útlöndum. Þó við Íslendingar séum færir um að meta þetta á okkar forsendum þá verðum við að gera það í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við teljum okkur bundna af. Ég vil grípa niður í viðtal sem tekið var við Ólaf Ólafsson landlækni. Þar segir hann frá norrænum fundi þar sem frv. heilbrrh. um gagnagrunn var kynnt. Landlæknir hefur ásamt fjölmörgum öðrum varað mjög við þessari hugmynd. Í þessu viðtali segir landlæknir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið sjálft vildu kollegar mínir lítið ræða og þótti sem þar færi viðkvæmt innanríkismál. Menn ræddu hins vegar almennt um gagnagrunna og það kom skýrt fram að miðlægur gagnagrunnur er ekki til umræðu hjá þeim. Þeir leggja höfuðáherslu á að upplýsingar um heilsufar séu í mörgum litlum gagnagrunnum en ekki eins stórum og lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi. Heilsufarsskrár eru lokaðar inni á opinberum stofnunum og ekki seldar á markaðssviði til einkafyrirtækja. Vissulega er sókn í það víðar en hjá okkur að fá að steypa heilsufarsupplýsingum saman. Það var reynt í Finnlandi en því var hafnað.``

Þetta er athyglisvert þar sem því hefur verið haldið á lofti til varnar þessari hugmynd að hið sama hafi verið gert í Finnlandi en ég þekki það reyndar ekki mjög vel. Ég reyndi að kynna mér það í gærkvöldi eftir umræðuna hér og mér skilst að grunnurinn í Finnlandi sé annars eðlis, hann sé dreifður og í eigu ríkisins.

,,Sömu sögu er að segja frá Noregi,`` --- segir landlæknir --- ,,þar leitaði lyfjafyrirtæki eftir upplýsingum úr sjúkraskýrslum frá ríkisspítölunum í Ósló og bauð í staðinn 100 millj. dollara styrk til vísindarannsókna. Eina skilyrðið fyrir styrknum, að fengnum upplýsingum úr sjúkragögnum, var að á viðkomandi deild yrði einungis ávísað lyfjum frá fyrirtækinu næstu þrjú árin. Þessu var alfarið hafnað þannig að umræða eins og hér hefur farið fram að undanförnu er einfaldlega ekki fyrir hendi á hinum Norðurlöndunum.``

Reyndar tekur landlæknir fram að út úr einum fundarmanna hafi hrokkið: ,,Gud bevare os for den islandske epidemien.`` Það útleggst einhvern veginn þannig: Guð verndi okkur fyrir hinum íslenska faraldri. Þannig er talað um þetta mál á meðal vísindamanna víða erlendis. Ég tel að við eigum að hlusta á þetta og gefa okkur tóm til þess að skoða hvort ekki sé æskilegra að framkvæma frekar hugmyndina um dreifða gagnagrunna.

Eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nefnt þá hugmynd er Urður, Verðandi, Skuld. Sú hugmynd þeirra hvílir á ættfræðigrunni og gagnabanka með heilsufarsupplýsingum þjóðarinnar sem kallaður er dreifður eða aðskilinn grunnur. Munurinn er sá að í miðlægum grunni eru allar heilsufarsupplýsingar samtengdar og hægt að skoða þær í samhengi en í dreifðum grunni eru upplýsingarnar í hólfum, t.d. eins og hér er sagt, SÁÁ í einu og upplýsingar frá Krabbameinsfélaginu í öðru og enginn kæmist í allar upplýsingarnar í einu.

Í viðtali Morgunblaðsins við Bernhard Pálsson, einn af forsvarsmönnum Urðar, Verðandi, Skuldar og jafnframt prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum, bendir hann á að í dreifðum gagnagrunni sé minni hætta á að óviðkomandi fái aðgang. Hann ímyndar sér að auðveldara verði að taka afrit af miðlægum gagnagrunni en aðskildum. Hann bendir reyndar líka á það í viðtalinu að möguleikinn á afritun og því að brjóta dulkóða og annað séu viðfangsefni tölvufræðinga og vissulega er það svo. Ég held að það sé reyndar mjög erfitt fyrir þá sem ekki hafa sérþekkingu á því sviði að meta slíkt. Miðað við þá löggjöf sem víðast hvar gildir, að samkeyrslan og upplýsingarnar allar á einum stað séu meiri ógnun við persónuverndina en á dreifðum stöðum, er þessi hugmynd enn þá skemmtilegri en miðlæga kerfið.

Ég ræddi um upplýst samþykki í andsvörum í gær, og reyndar aðeins fyrr í ræðu minni í dag, og hvort það væri mögulegt. Ég fullyrði að með þessu frv. sé vikið frá meginreglum um rannsóknir á fólki. Siðareglum um rannsóknir á fólki hefur gjarnan verið skipt í fjóra flokka. Fyrsti flokkurinn lýtur að samþykki þátttakenda í rannsókninni og meginlögmálið er að þeir sem gangast undir rannsókn verði að gera það sjálfviljugir og hafa fulla vitneskju um eðli rannsóknarinnar, markmið hennar, framkvæmd sem og áhættuna sem henni fylgir. Í frv. er vikið frá þessu enda ekki talið hægt þar sem menn viti ekki hver endanleg markmið þessa grunns séu eða hvaða upplýsingar eigi að setja þarna inn. Það hefur líka verið talið meginatriði að þátttakendur hafi rétt til að draga samþykki sitt til baka á hvaða stigi rannsókna sem er. Annar flokkurinn lýtur að áhættuþættinum. Aðalreglan er sú að það sem vinnst með rannsóknum á mönnum þarf að vega meira en skaðinn sem þær kunna að valda, útiloka verður eftir megni alla óvissu og óþarfa áhættu. Þriðji flokkurinn varðar síðan faglega ábyrgð og hæfni þeirra sem framkvæma rannsóknir á fólki og þarf ekkert að draga í efa hér. Allt snýst þetta um fólk. Jafnvel þó við gerum þessar upplýsingar ópersónugreinanlegar, þá er um að ræða rannsóknir á fólki og við verðum því að fara eftir þeim meginreglum sem gilda um rannsóknir á fólki. Það verður að segjast eins og er: Ætlunin er að fara á svig við meginreglur um rannsóknir á fólki. Ekki er talin þörf á að fyrir liggi klár rannsóknaráætlun til þess að fá aðgang að þessum upplýsingum eins og er í dag. Við verðum að gera þá kröfu, ef við ætlum á annað borð að vernda einstaklingana fyrir þeim hættum sem þeim getur stafað af rannsóknum á fólki, að þessar reglur verði virtar. Heilbrigðispólitíkin sem rekin er í þessu frv. er ekki að mínu skapi og ég held að áhættan sem þessi hugmynd felur í sér sé miklu meiri en svo að þess virði sé að framkvæma hana.

Varðandi þær forsendur frv., eins og látið hefur verið að liggja í umræðunni, að með þessari framkvæmd leggi Íslendingar lóð á vogarskálarnar þess að finna lækningu við öllum sjúkdómum sem hrjá mannkynið á næstu tíu árum eða hvað það nú er, þá efast ég stórlega um þær. Ég efast stórlega um að þetta sé rétt og að eðlilegt sé að menn gefi fólki slíkar gyllivonir.

Ég verð að ljúka máli mínu núna en ég kem því kannski seinna að sem ég hef fleira að segja um þetta mál. Ég vil bara ítreka að þau verðmæti sem talin eru felast í þessari hugmynd nýtast jafn vel með dreifðum gagnagrunnum og með miðlægum.