Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:11:18 (497)

1998-10-16 11:11:18# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir mjög málefnalega ræðu þó að mínu mati sé frv. kannski frekar dökkt málað. Ég vildi hins vegar spyrja hv. þm. út í eftirfarandi. Hún sagði eftir því sem ég náði að frv. veitti sumum vísindamönnum forgang umfram aðra. Hv. þm. las upp úr bréfi frá Krabbameinsfélaginu að starfsemi félagsins yrði háð leyfum annarra.

Í 2. gr. frv. stendur að setja eigi upp einn gagnagrunn og hann er ekki til í dag en aðrir gagnagrunnar verði alveg undanskildir lögunum. Hvað breytist fyrir þá vísindamenn sem vinna við núverandi gagnagrunna? Þeir geta unnið með þá áfram alveg óbreytt. Hið eina sem breytist er að við bætist nýr grunnur sem þeir fá hugsanlega aðgang að en hugsanlega ekki. Eru þeir verr settir?

Þá talaði hv. þm. um einkaleyfið og hafði eitthvað á móti því. Hefur hv. þm. eitthvað á móti einkaleyfi á lyfjum sem greinilega hækkar verð á lyfjum? Hefur hann á móti t.d. höfundarrétti tónskálda og rithöfunda sem gerir það að verkum að það geta ekki allir notað þessi tónverk og ritverk eins og þeim dettur í hug? Þetta eru aðgerðir löggjafans til þess að vernda eign í hugverkum nákvæmlega eins og einkaleyfi á gagnagrunninum.