Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:19:59 (505)

1998-10-16 11:19:59# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:19]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér dró hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fram mikla ógn af miðlægum gagnagrunni og talaði um að dreifðir grunnar væru betri. Ég á mjög erfitt með að átta mig á þessum rökum. Ég vil lesa upp það sem þessir 15 prófessorar og lektorar í háskólanum skrifa nákvæmlega um þetta atriði en þeir segja að ljóst sé að miðlægur gagnagrunnur sé skilvirkari og hraðvirkari í notkun en dreifðir. Það er vandséð að dreifðir gagnagrunnar hafi kosti umfram miðlæga.

Ég spyr: Er ekki betra að hafa féð í einum hóp en í mörgum dreifðum hópum? Það er betra að passa þetta ef þetta er í einum miðlægum grunni.

Varðandi þá ógn sem vísindamönnum stafar af því að þessi miðlægi gagnagrunnur kemur, að ekki verði eins sjarm\-erandi að fjárfesta í t.d. rannsóknum sem eru ekki tengdar miðlæga gagnagrunninum, þá er þetta nú bara eðli framfara. Á maður t.d. að nota sömu rök gagnvart versluninni í landinu? Ef það kemur stór verslun þá er hún alveg hræðileg af því hún getur ógnað þeim minni verslunum sem fyrir eru? Mér finnst þetta ekki boðlegt.