Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:08:24 (514)

1998-10-16 12:08:24# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur fyrir mjög málefnalega ræðu. Hún sagði á einum stað: Hvers vegna fjárfestir ríkið ekki sjálft í grunninum? Þetta er mjög góð spurning. Það er nefnilega þannig að í þessum grunni er feiknarleg áhætta þeirra sem fjárfesta í honum, sennilega mesta áhætta sem til er, meiri en í hugbúnaði. Þeir sem stunda rannsóknir vita að þeir eru að rannsaka eitthvað sem er ekki þekkt, annars þarf ekki rannsóknir. Það sem ekki er þekkt þarf ekki að vera til þannig að þeir geta lent í því að þær rannsóknir sem þeir stunda leiði til einskis. Fjöldi vísindamanna hefur stundað ævilangar rannsóknir og aldrei fundið það sem þeir leituðu að. Þetta er þekkt.

Svo kemur samkeppnisáhætta. Verið getur að einhver annar finni niðurstöðuna sem leitað er að. Síðan kemur markaðsáhætta. Það getur verið að einhver annar markaðssetji lyf eða eitthvað annað í samkeppni við þetta. Ég tel því að hér sé um almestu áhættu sem um er að ræða og ég vil forða því að íslenska ríkið taki þátt í slíkri áhættu fyrir utan að ég hef þá trú að einkaaðilar geri hlutina ódýrar, betur og hraðar en ríkið. Ég bendi á að rekstur heilbrigðiskerfisins á Íslandi hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir.

Ég verð að taka undir þá beiðni hv. þm. Tómasar Inga Olrichs til hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um það að gera ekki kröfu til persónugreinanlegra grunna að þar af leiði upplýst samþykki. Það mundi stofna mjög merkum rannsóknum hjá Krabbameinsfélaginu í voða þar sem eru stundaðar mjög merkar faraldsfræðilegar rannsóknir á krabbameinsskránni sem er undir kennitölu.