Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:38:43 (521)

1998-10-16 12:38:43# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:38]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki fyrri fyrirspurn minni hvers vegna við ættum ekki að nýta þetta tækifæri til þess að búa enn öflugra vopn til í baráttunni gegn sjúkdómum. En ég verð að segja eins og er að nú beinist athyglin að því að persónugreinanlegar upplýsingar í gagnagrunni geti orðið til þess að veikja trúnaðartraustið. Það sem ég er að segja er að þeir menn sem vara við þessu hafa samt búið við það á undanförnum árum að nýta upplýsingar án upplýsts samþykkis, upplýsingar sem eru persónugreinanlegar. Í vissum tilvikum þegar saman hafa verið keyrð upplýsingakerfi, þá hefur verið notuð dulkóðun þannig að allt það sem þeir óttast mest í miðlægum gagnagrunni er til með ýmsum hætti í kerfinu í dag og hefur ekki skaðað heilbrigðiskerfið og ekki skaðað trúnaðartraustið sem ríkir milli lækna og sjúklinga.

Ég verð að segja eins og er að það er nokkur ábyrgðarhluti að tala svo fjálglega um að gagnagrunnurinn geti skaðað þetta traust vegna þess að umtalið sjálft skaðar trúnaðartraustið. Að sjálfsögðu hef ég orðið var við að það hafa orðið mistök í samskiptum lækna og sjúklinga og stundum hefur verið farið með upplýsingar sem ekki skyldi gera. En menn tala að sjálfsögðu ekki mikið um það vegna þess að það eru undantekningar sem sanna að reglan er virk. Ef við værum hins vegar sífellt hreint að tala um þessi mistök mundum við skaða trúnaðartraustið sem er á milli lækna og sjúklinga og þess vegna held ég að umræðan um hættuna af gagnagrunninum sé þegar farin að valda skaða vegna þess að hún hafi verið óvarleg.