Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:42:35 (523)

1998-10-16 12:42:35# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir mjög málefnalega umræðu og alveg sérstaklega fyrir varnaðarorðin því að okkur veitir ekki af varnaðarorðum í allri þessari umræðu. Hann spyr um nauðsyn einkaleyfis og segir að von sé á tilskipun frá Evrópusambandinu um höfundarrétt á gagnagrunninum og hann spyr af hverju það tryggi ekki nægilega vel. Því er til að svara að í 7. lið 5. gr. segir, með leyfi forseta, að upplýsingarnar sem settar eru í grunninn ,,skulu unnar með þeim hætti að þær uppfylli þarfir viðkomandi stofnunar eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns fyrir samræmt upplýsingakerfi, þarfir sérgreina og þarfir heilbrigðisyfirvalda, sbr. 6. tölul., og að þær nýtist við vísindarannsóknir.``

Það merkir að meginhluti af þessu starfi, og að mínu mati er það einn verðmætasti þátturinn, er skilgreining á gögnunum, skilgreining á því hvað þarf að geyma, t.d. varðandi magakrabba. Þegar búið er að skilgreina þetta einu sinni þá getur ekki verið einkaleyfi á skilgreiningunni og þá getur einhver annar komið daginn eftir og notað nákvæmlega sömu skilgreiningu sem búið er að setja mikla fjármuni og mikið vit og atorku í að setja fram. Það getur einn komið og notað nákvæmlega sömu skilgreiningu til að byggja upp gagnagrunn við hliðina. Þetta tel ég að sé ástæða þess að ekki er hægt að vísa í tilskipun Evrópusambandsins um höfundarrétt vegna þess að þarna er verið að búa til hugverk sem er ekki hægt að beita höfundarrétti á.