Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:17:56 (530)

1998-10-16 14:17:56# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það væri betra að opinberir aðilar, eftir því sem ég skildi hann, mundu búa til þennan grunn, að opinber stofnun gerði þetta en ekki einkaaðilar. Þarna skilur sennilega á milli okkar bara hvað varðar hugsjón eða lífssýn. Ég hef aðra lífssýn en hv. þm. og það er ekkert við því að segja. En hann sagði að allir ættu að hafa jafnan aðgang að þessum grunni og þá er það spurningin: Er betra að hafa engan grunn en hafa grunn sem er misjafn aðgangur að? Er betra að hafa engan grunn sem engir hafa þar af leiðandi aðgang að eða hafa misjafnan aðgang? Svo sagði hann að það mætti ekki græða á rannsóknum? Telur hann betra að útlendingar græði á rannsóknum eins og nú þar sem íslenskir vísindamenn eru að vinna fyrir lág laun og útlend fyrirtæki notaða niðurstöður vísindarannsókna þeirra til að græða á? Er það betra að grætt sé úti í heimi?

Síðan sagði hann að menn gerðu allt bara ef þeir fá peninga. Ég vil benda honum á að ég tók það sem þriðja atriðið. Fyrsta atriðið var það að við bætum læknavísindin, annað atriðið að við aukum virðingu vísindamanna á Íslandi og þriðja atriðið hjá mér, nánast undir lokin, voru peningarnir. Þannig leit ég á þetta. Ég ræddi líka sérstaklega um að gagnagrunnurinn væri meira góður en vondur í siðfræðilegum skilningi, að hann gerði meira gagn fyrir mannkynið heldur en ógagn fyrir nokkra Íslendinga þannig að ég reyndi að leggja siðferðilegt mat á gagnagrunninn sem slíkan.