Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:19:38 (531)

1998-10-16 14:19:38# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst menn gera ansi mikið úr því að ekkert verði til í rannsóknum í þágu læknavísindanna ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Ég veit ekki betur en að upplýsingar liggi úti um allt samfélagið. Þær eru að vísu ekki í miðlægum gagnagrunni en það er verið að vinna úr þessum upplýsingum á hverjum einasta degi og gengur bara bærilega. Átta menn sig ekki á því að þegar hafa hafið störf, að því er manni skilst, í kringum 200 manns? Og úr hvaða grunnum eru þeir að vinna? Auðvitað eru þeir að vinna úr gagnagrunnum sem eru til og margir aðrir eru að vinna eftir og vinna í og þeir munu halda því áfram.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það skilur á milli okkar, hv. þm. Péturs Blöndals og mín, því að ég vil að opinberir aðilar haldi um þessi mál. Ég vil ekki einkaleyfi. Ég vil ekki mónópól og þar skilur á milli.