Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:25:37 (535)

1998-10-16 14:25:37# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að mér finnst fleiri og fleiri þingmenn vera á því að það þurfi að skoða málin í nýju ljósi. Auðvitað er ekki öll von úti því að málið á eftir að fara í nefndir og það á eftir að ræða það mikið. Og ég treysti því sérstaklega eins og ég benti á áðan að þau varnaðarorð sem hafa verið sett fram verði tekin til greina í vinnu nefndarinnar. Auðvitað er það von mín í þessu tali um siðferðilegan grunn að menn endurskoði það líka hver á að standa fyrir gagnagrunni. Ég geri mér fulla grein fyrir því að áherslumunur er hér á milli manna um það hvort menn vilja vera prívat, einstaklingshyggjumenn, með einkafyrirtæki eða opinberan rekstur. En eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á áðan í sambandi við opinberar stofnanir og opinberan rekstur þá vil ég sem opinber starfsmaður frábiðja mér það að ekki sé unnið dyggilega að málum þar sem opinberir starfsmenn koma að. Þeir eru hugsjónamenn, góðir til verka og þar innan um eru ekki fleiri lélegir eða vondir starfsmenn en gengur og gerist á öðrum vinnustöðum og þar með talið er hæstv. þingið.