Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 16:56:11 (547)

1998-10-16 16:56:11# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[16:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðan hefur orðið til góðs, segir hæstv. heilbrrh., öll umræða er til góðs. Það er ekki alltaf svo og á eftir að koma í ljós hvert þessi umræða sem hér hefur farið fram leiðir. Við förum betur með persónuupplýsingar en áður, er mat hæstv. heilbrrh. þegar hún metur umræðuna sem farið hefur fram í þjóðfélaginu og á Alþingi um þetta mál. Ég held ekki, því miður. Vegna þessarar lagasetningar, ef þetta frv. verður að lögum, munu upplýsingar um heilsufar Íslendinga verða söluvara, annars vegar til lyfjafyrirtækja sem munu notar þessar upplýsingar til að gera tilraunir á íslensku þjóðinni og hins vegar til tryggingafyrirtækja sem munu nota þessar upplýsingar til þess að mismuna áhættuhópum í sínum viðskiptahópi. Mér finnst ekki til góðs að stuðla að slíkri þróun hvort sem er hér eða í heiminum almennt.

Varðandi persónuverndina sem hæstv. ráðherra gerir einnig að umræðuefni hef ég vakið athygli á því, það hefur hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir reyndar einnig gert, að í raun er það ekki löngunin til að grennslast fyrir um hagi einstaklinga á Íslandi sem vakir fyrir viðskiptavinum Íslenskrar erfðagreiningar. Þeir vilja ekki fá upplýsingar um einstaklinga hér á landi heldur á fyrst og framst að rannsaka hópana. Við erum því miður að setja okkur niður í það tilraunabúr sem lýst var í einu svissnesku fræðiriti þannig að Íslendingar ætluðu að gerast tilraunamýs heimsins. Ég get því ekki tekið undir með hæstv. heilbrrh. Þótt umræðan hér sé góðra gjalda verð þá efast ég um að þessi málatilbúnaður allur verði til góðs þegar upp er staðið.