Þjónustukaup

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 15:20:20 (564)

1998-10-19 15:20:20# 123. lþ. 13.12 fundur 113. mál: #A þjónustukaup# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um þjónustukaup sem samið var af nefnd sem skipuð var fulltrúum viðskrn., Samtaka iðnaðarins, Neytendasamtakanna og Samkeppnisstofnunar. Þetta frv. hefur áður verið lagt fram á Alþingi. Það var gert á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Í sumar hefur ráðuneytið athugað efni frv. nánar eftir skoðun efh.- og viðskn. Niðurstaða þeirrar athugunar er að frv. þetta er nú lagt fram í óbreyttri mynd frá því sl. vor.

Á undanförnum árum hefur þörf á almennri lagasetningu sem tekur til seldrar þjónustu farið vaxandi. Þjóðfélagið tekur örum breytingum og verður flóknara og neytendur þurfa í síauknum mæli að treysta á þjónustu sem hinar ýmsu fagstéttir veita. Jafnframt verður að leggja áherslu á að aðstaða neytenda er önnur þegar um er að ræða kaup á þjónustu en þegar um er að ræða kaup á vöru.

Þegar samningur er gerður um kaup á þjónustu getur neytandi ekki skoðað það sem keypt er með sama hætti og þegar keyptur er hlutur. Mikilvægt er því að treysta réttarstöðu neytenda, einkum og sér í lagi þeirra sem hafa ekki yfir sérþekkingu að ráða. Við kaup á þjónustu reynir á mörg þau sömu atriði og upp koma í kaupum í viðskiptum með vörur, t.d. ef keypt þjónusta reynist vera gölluð eða dráttur verður á afhendingu hennar o.s.frv. Í einstaka tilfellum hefur verið unnt að beita lögunum um lausafjárkaup til að leysa úr ágreiningi undir slíkum kringumstæðum. En ljóst er að þau lög veita ekki fullnægjandi réttarvernd fyrir neytendur.

Lög um þjónustukaup hafa verið sett annars staðar á Norðurlöndum að Danmörku undanskilinni. Finnsk lög um þjónustukaup ganga einna lengst í vernd til handa neytendum en sænsk og norsk lög nokkuð skemmra. Frumvarp þetta tekur mið af lagasetningu annars staðar á Norðurlöndum en danskt frumvarp sem samið var árið 1988 um þetta efni hefur enn fremur verið haft til hliðsjónar við samningu frumvarpsins. Ákvæði þessa frumvarps um neytendavernd þegar keypt er þjónusta er nýmæli í löggjöf hér á landi.

Velta þjónustugreina hefur aukist um 10--20% að raunvirði á tímabilinu 1990--1995. Þar af hefur velta í bifreiðaviðgerðum aukist um 15% og velta í skóviðgerðum um 9% svo dæmi séu tekin. Velta í greinum eins og tölvuþjónustu hefur aukist mun meira.

Hlutur þjónustu af einkaneyslu landsmanna hefur jafnframt aukist, eða úr 35,4% af allri einkaneyslu á árinu 1990 og upp í 37,8% af einkaneyslu árið 1995. Enn fremur er þjónusta, sem veitt er í tengslum við fasteignir og sumarhús, stór útgjaldaliður enda hefur fasteignum fjölgað mjög á seinni árum og nauðsynlegt viðhald og endurbætur á þessum eignum þar af leiðandi stóraukist.

Nýjar þjónustugreinar hafa bæst við eins og geymsla á lausafjármunum þar sem engin eiginleg vinna er tengd hlutunum, t.d. búslóðageymsla, frystigeymslur o.fl. Af þessari ástæðu ná ákvæði frumvarpsins einnig til þjónustu sem felst í geymslu muna og er stunduð í atvinnuskyni gegn endurgjaldi.

Umsvif aukast sífellt á sviði seldrar þjónustu, svo og fjölbreytni hennar, og má nefna í því sambandi ráðgjafarþjónustu af ýmsu tagi. Um ýmsar þjónustugreinar gilda einnig oft á tíðum sérlög, t.d. lög nr. 34/1986, um fasteignasala, og lög nr. 117/1994, um ferðaskrifstofur.

Aðalhvatinn að lagasetningu á sviði þjónustu hér á landi er hinn sami og í öðrum ríkjum sem sett hafa sérstök lög um þjónustukaup, þ.e. að leysa úr brýnni þörf á lagareglum til að greiða úr réttarágreiningi sem kann að rísa vegna kaupa á þjónustu. Að vísu geta skýr samningsákvæði seljanda og kaupanda þjónustu oft leyst úr vandamálum er upp kunna að koma en það er sjaldgæft að gert sé ítarlegt samkomulag um þau þjónustuverk sem á að vinna. Enn fremur er oft stuðst við ákvæði laga sem gilda um kaup á vöru þegar leysa á úr réttarágreiningi en takmarkaðar leiðbeiningar getur verið að finna í slíkum lagaákvæðum.

Að öllu framangreindu athuguðu þótti rétt að leggja aftur fram í þinginu frv. til laga um þjónustukaup. Um meginefni frv. vil ég vísa til ræðu minnar frá því á síðasta þingi þar sem ég gerði grein fyrir því hvað fólst í einstökum greinum frv., og vísa þar af leiðandi til þeirrar framsöguræðu sem flutt var með frv. á síðasta þingi.