Endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 15:42:57 (566)

1998-10-19 15:42:57# 123. lþ. 13.15 fundur 20. mál: #A endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afskaplega gott og þarft mál sem flutt er í till. til þál. um endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu. Ég tek undir það sem kom fram í máli flm. að það er undarlegt að við skulum hafa fengið hingað stjfrv. fyrir svo mörgum árum án þess að því hafi verið fylgt eftir og að það skuli í raun hafa týnst á ný og horfið úr sölum Alþingis, ekki verið endurflutt, ekki verið unnið í nefnd eða afgreitt frá nefnd, jafnmikilvægt og það er fyrir fólkið í landinu, fyrir alla þá sem lenda inni á sjúkrahúsum, inni á stofnunum, reknum af ríkinu og telja að á þeim stað sem þau eru stödd séu þau best sett af öllum stöðum landsins. Þarna sé verið að taka á málum þeirra, þarna sé verið að hlúa að viðkomandi á besta hátt og að hvergi sé viðkomandi jafnöruggur hvort sem um er að ræða veikindi, slys eða annað það sem hefur gert það að verkum að einstaklingur hefur leitað inn á sjúkrastofnun eða verið vistaður þar um tíma.

Síðan gerist það að í stað þess að fá bót meina sinna, í stað þess að viðkomandi sé á þeim stað sem best verður haldið á málum hans þá lendir hann e.t.v. í læknamistökum, veikindum, rangt er tekið á málum og hann getur borið skarðan hlut frá borði, orðið öryrki upp frá því eða jafnvel að viðkomandi látist og lítið sé hægt að gera með þá stöðu sem upp hefur komið.

[15:45]

Herra forseti. Þetta er afskaplega alvarlegt mál og því miður kemur alvara þess fyrst og fremst í ljós eftir á þegar viðkomandi sjúklingur hefur lent í erfiðleikum, þegar sú staða er komin upp að miskinn er til staðar eða dauðsfall hefur átt sér stað. Og það er ótrúlega erfitt eftir á að reyna að leita réttar síns, sérstaklega þegar engin lög eru til staðar til að halda í eða sýna fyrir þann sem þess þarf.

Við höfum margoft rætt þessa stöðu og þingmenn úr þingflokki jafnaðarmanna hafa flutt frv. um umboðsmann sjúklinga sem væri t.d. ein leiðin fyrir fólk að leita réttar síns, hvort heldur það eru aðstandendur eða einstaklingur sem á sjúkrastofnun hefur lent í erfiðleikum, sjúkdómi eða fötlun í kjölfar læknismeðferðar. Slíkt mál hefur ekki hlotið náð hins háa Alþingis enn þá en við munum freista þess að úr því verði bætt.

Það er athyglisvert að þegar árið 1992 voru sett lög í Danmörku sem tryggðu rétt sjúklinga eins og hér er gerð tillaga um og þau svo útvíkkuð árið 1995. Þessi dönsku lög hafa skapað aukinn rétt fyrir sjúklinga þar til skaðabóta vegna afleiðinga rannsókna og meðferðar á sjúkrahúsum og samkvæmt þeim er unnt að fá greiddar skaðabætur jafnvel án þess að sannað sé að um mistök læknis hafi verið að ræða. Hér er þetta erfiðleikum bundið jafnvel þó fyrir liggi að mistök hafi átt sér stað, hvað þá heldur ef óljóst er hvar mistökin hafa orðið og hver réttur sjúklingsins er. Ég verð að viðurkenna að ég er slegin yfir því að við skulum hafa fengið stjfrv. til umfjöllunar á Alþingi sem átti að tryggja þennan rétt eins og framsögumaður gat um en að það frv. skuli hafa verið lagt til hliðar og við skulum ekki vera komin lengra en raun ber vitni.

Ég vil vekja athygli á því svari heilbrrh. við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur sem flutningsmaður nefndi, að samkvæmt tölvufærðri skrá um ágreiningsmál sem haldin hefur verið hjá landlæknisembættinu í um áratug hefur fjöldi mála verið að aukast frá nokkrum tugum í um það bil 250 mál á ári. Það kemur fram að þarna er verið að ræða allar kvartanir og kærur sem berast embættinu en undanskilin eru þau mál sem afgreidd eru í gegnum síma. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekki vegna þess að læknamistök hafa verið að aukast svo mjög á liðnum árum að fjöldi kæra hefur aukist úr nokkrum tugum í 250, öðru nær. Það er vegna þess að fólk er betur upplýst um hvað hefur verið að gerast, um orsakir þess sem gerðist og allmargir eru upplýstir um þann rétt sem fólk á að hafa og leita þess réttar jafnvel þó lögunum sé ábótavant. Herra forseti. Jafnvel þó lögunum sé svo ábótavant.

Þegar við sjáum að undanskilin eru þau mál sem afgreidd eru gegnum síma og þar með öll þau sem ekki eru kærð þá gerum við okkur grein fyrir því að mjög margir kanna hver er réttur sjúklings, hver er réttur þess sem í hlut átti eða hver er réttur eftirlifandi þegar um er að ræða að sjúklingur hafi látist af völdum einhvers sem gerðist á sjúkrahúsinu og rekja má til mistaka í umönnun eða læknisaðgerðum. Mér segir svo hugur að þau mál sem ekki leiða til kæru séu fleiri vegna þess að fólk brestur kjark, það brestur þor að leita síns réttar ekki síst ef um dauðsfall er að ræða, þá kemur líka inn sú tilfinning að ekkert geti bætt skaðann sem orðinn er.

Þess vegna, herra forseti, er svo mikilvægt að heilbr.- og trn. skoði þessa tillögu vel og álykti um að endurskoða skuli reglur um sjúkratryggingu svo að við í velferðarríkinu Íslandi sem höldum að heilbrigðiskerfið sé með því besta sem gerist meðal þjóða, tryggjum að þessi þáttur sé jafngóður og í nágrannalöndum okkar. Engin fjölskylda á að þurfa að búa við það að einstaklingur sem leggst inn á sjúkrastofnun og kemur annaðhvort ekki þaðan út aftur eða hefur orðið fyrir þeim skaða að hann eigi að geta leitað réttar síns, að ekki skuli vera lagastoð fyrir því að hægt sé að leita réttar vegna þess sem þarna hefur gerst.