Nýtt starfsheiti fyrir ráðherra

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 15:53:07 (568)

1998-10-19 15:53:07# 123. lþ. 13.16 fundur 22. mál: #A nýtt starfsheiti fyrir ráðherra# þál., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og hv. þm. Svavar Gestsson. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið. Nauðsynleg lagafrumvörp verði lögð fram hið fyrsta.``

Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:

Sú þróun hefur átt sér stað í hefðbundnum kvennastéttum þegar karlar hafa haslað sér þar völl að starfsheitum hefur verið breytt til þess að bæði kynin gætu borið þau. Þannig urðu hjúkrunarkonur að hjúkrunarfræðingum, fóstrur urðu leikskólakennarar og Fóstruskóla Íslands var breytt í Fósturskóla Íslands, m.a. af tillitssemi við karla því að ekki þótti boðlegt fyrir karlmenn að vera kvenkenndir. Um eðlilega og sjálfsagða leiðréttingu var að ræða. Ef orðin ráðherra og sendiherra væru t.d. ,,ráðfrú`` og ,,sendifrú`` hefði eflaust einnig þótt sjálfsagt að breyta starfsheitinu um leið og fyrsti karlmaðurinn tók að sér slíkt embætti. Það er því í fyllsta samræmi við þessa þróun að breyta einnig starfsheitum í hefðbundnum karlastéttum, þannig að konur geti borið þau. Ráðherraembætti eiga ekki að vera eyrnamerkt körlum.

Orðið ráðherra ber þess merki að æðsta stjórn landsins er í höndum karla, enda var það svo að frá stofnun lýðveldisins og fram til ársins 1970 gegndi engin kona embættinu. Á lýðveldistímanum hafa 98 karlar gegnt ráðherraembætti en aðeins fimm konur, og nýlega tók 99. karlinn við ráðherraembætti. Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið ,,herra``. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir tvennt samkvæmt orðabók Menningarsjóðs, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum. Það er því mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt. Sömu rök eiga við um stöðuheitin sendiherra og skipherra sem væntanlega eru einnig formlega opin fyrir konur.

Á það hefur verið bent að orðið herra beygist ekki neitt. Það er eins og það sé frosið orð álíka og orðið ,,séra``. Orðið herra er eina karlkynsorðið sem endar á -rra. Önnur orð eins og t.d. kerra eru kvenkyns og beygjast þá yfirleitt kerra, um kerru. Sama á við um önnur karlkynsorð sem enda á -a eins og Órækja og Sturla.

Í nágrannalöndum okkar eru mun kynhlutlausari orð notuð yfir þá sem sæti eiga í ríkisstjórn, samanber ,,secretary`` í Bandaríkjunum og Englandi og ,,minister`` á Norðurlöndum, Þýskalandi og Frakklandi. Þrátt fyrir það hafa ráðakonur gert athugasemdir við slíka titla og er þess skemmst að minnast að franskir kvenráðherrar notuðu starfstitla sína í kvenkyni. Þær kalla sig ,,madame la ministre`` í stað hins hefðbundna ,,le ministre``. Því var mótmælt af frönsku akademíunni og bent á að slíkt væri málfræðivilla. Eðlileg lausn hefði getað verið sú að skipta um heiti á embættinu eða að öðrum kosti að heimila þá notkun sem konunum fannst sér samboðin. Því er ekki haldið fram hvorki þar né í þessu þingmáli að um mannréttindabrot sé að ræða, en það er tvímælalaust óvirðing að karlkenna konu á sama hátt og það er óvirðing að kvenkenna karl.

Þá hefur verið bent á að orðin ,,minister`` og ,,secret\-ary`` hafi ekki eins valdbjóðandi og kynbundið yfirbragð og ráðherra. Erlendu orðin hafa lýðræðislegra yfirbragð og gefa skýrar til kynna að viðkomandi séu þjónar fólksins fremur en herrar.

Í stjórnarskránni er talað um ráðherra í 13.--19. gr. og í 54.--56. gr. Þar sem um brýnt mál er að ræða þarf að athuga hvort hægt sé að breyta starfsheitinu strax á þessu þingi með nauðsynlegum lagabreytingum þó að breytingarnar á stjórnarskránni taki gildi síðar.

Í tillögu þessari er ekki stungið upp á nýju orði í stað ráðherra. Aðalatriðið er að nota orð sem hentar báðum kynjum. Á Íslandi finnast ótal dæmi um snilldarlega nýsmíði orða. Leita mætti eftir tillögum t.d. hjá íslenskri málnefnd og heimspekideild Háskóla Íslands. Vel kæmi einnig til greina að fram færi vel auglýst samkeppni um verðugt orð yfir þessi mikilvægu embætti þjóðarinnar sem konur hljóta að gegna í æ ríkari mæli á komandi árum.

[16:00]

Herra forseti. Þessi tillaga kom fyrst fram á síðasta þingi en komst þá ekki á dagskrá. Nokkur viðbrögð hafa þegar orðið við tillögunni, bæði jákvæð og neikvæð. Dæmi um neikvæð viðbrögð eru hneykslan á því hvort þetta sé nú brýnasta málið á Alþingi og hins vegar hefur verið bent á að ráðherra sé virðulegt starfsheiti og ekki eigi að kasta því loksins þegar konur eigi aukna möguleika á að geta notað það.

Vissulega er þetta ekki það mál sem brennur brýnast á almenningi í landinu. En slíkt heiti hefur oft meiri áhrif en ætla mætti, meðvitað og ómeðvitað. Franskir ráðherrar sjá ástæðu til að kvarta yfir kyni starfsheitisins samanber t.d. starfsheiti eins og forseti, prestur eða borgarstjóri. Þá finnst mér það mun minna mál samanber karlkynsorð sem eru merkingarlega hlutlaus eins og t.d. orðið fræðingur. Hér er hins vegar um merkingarleysu að ræða, þ.e. að einhver sé bæði frú og herra eins og hæstv. heilbrrh. er nú titluð og mér finnst konum alls ekki samboðið að kalla þær herra.

Að auki er orðið óþarflega valdbjóðandi og gefur alls ekki til kynna að viðkomandi þiggi vald sitt frá almenningi. Af þeirri ástæðu einnig tel ég rétt að breyta heitinu.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ekki lagt til ákveðið starfsheiti í staðinn fyrir ráðherra. Það er gert af ásettu ráði vegna þess að ég tel að það sé mjög hollt að þjóðin velti þessu fyrir sér, að kennarar láti grunnskólabörn, framhaldsskólanema og háskólanema velta því fyrir sér hvort réttmætt sé að nota þetta orð um konur og karla.

Ein besta tillagan sem ég hef heyrt, því að margir hafa verið að velta þessu fyrir sér, er hugtakið aðalritari, samanber aðalritari Sameinuðu þjóðanna og það orð hefur þann kost að geta átt við bæði kyn. Ráðynja var nefnt sem kvenheiti á móti ráðherra, að ég held í Þjóðarsálinni, en ég tel það mun óæskilegra, þ.e. að hafa sitt hvort starfsheitið fyrir konur og karla sem gegna þessu embætti.

Æskilegt væri að mínu mati að efna til samkeppni um orð þótt ljóst sé að slík samkeppni og fjölmiðlaumræða kalli oft fram óviðeigandi eða skopleg heiti samanber t.d. orðið senditík fyrir sendiherra sem að sjálfsögðu er með öllu óviðunandi. Ég tel æskilegt að leita verði ráða til Íslenskrar málnefndar samanber lögin um Íslenska málefnd frá 1990 eins og áður segir.

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvægt táknrænt mál að ræða sem snertir grunn kvennabaráttunnar því rætur karlaveldisins liggja djúpt og stundum er nauðsynlegt að snerta heilög vé til að vekja almenning til umhugsunar.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málinu verði vísað til hv. allshn. og til umsagnar viðeigandi aðila.