Vegtollar

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 16:36:29 (572)

1998-10-19 16:36:29# 123. lþ. 13.20 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 18. þm. Reykv. segir að víða úti í heimi eru menn að skoða mjög margar leiðir að þessu sama marki sem segir okkur að þetta er mjög víða ákveðið vandamál sem þýðir ekkert að horfa fram hjá og þetta er auðvitað vandamál sem er að birtast okkur þó að það sé að sumu leyti í smærri mæli.

Ég komst að þeirri niðurstöðu þegar ég fór að skoða málið að sú leið að beita mismunandi vegtollum til að stýra umferðinni og dreifa þannig nýtingunni á fjárfestingunni væri tiltölulega einföld. Þetta er leið hagfræðinnar, leið sem gerir það að verkum að hún krefst ekki mjög mikils eftirlits eins og hv. þm. nefndi t.d. um reglur um akstur bíla og þess háttar. Þetta er auðvitað vandasamt en niðurstaða mín varð sú að skynsamlegast væri í þessu samhengi að skoða fyrst og fremst hvaða einfaldar leiðir væru til til að hafa þessi áhrif. En ég get út af fyrir sig tekið undir það að mér finnst alveg sjálfsagt að annað sé undir líka þegar menn fara að vinna að málinu.

Eitt vil ég kannski segja sem ég hefði getað nefnt í frumræðu minni áðan. Það er að það vekur athygli þegar maður fer að skoða gögn, erlend gögn varðandi mál af þessu tagi, hversu lítil áhrif það hefur eða hversu erfitt það er í raun og veru að stýra mönnum til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum. Til dæmis er ljóst að lækkandi gjöld til almenningssamgangna virðast ekki hafa þau áhrif að fólk fari að nota strætisvagna í stað einkabílsins. Einkabílisminn virðist vera ríkjandi og fyrir því eru margar ástæður.