Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 13:35:06 (578)

1998-10-20 13:35:06# 123. lþ. 14.1 fundur 115. mál: #A almenn hegningarlög# (mútur til opinbers starfsmanns) frv., 116. mál: #A refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum og frv. til laga um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns. Með þessum frumvörpum eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum svo unnt verði að fullgilda samning OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum sem undirritaður var í París 17. des. 1997.

Þessi samningur hefur áður komið til kasta Alþingis en með þál. 2. júní sl. var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samninginn af Íslands hálfu.

Á alþjóðavettvangi hefur verið lögð rík áhersla á samstöðu þjóða um aðgerðir gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi. Mútusamningurinn er viðleitni af því tagi. Meginatriði samningsins er að finna í 1. gr. hans, en þar segir að samningsríkin skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að gera refsiverða í löggjöf sinni þá háttsemi að bjóða, gefa eða færa erlendum opinberum starfsmanni óhæfilegar ívilnanir. Skiptir engu hvort um er að ræða fjármuni eða annað sem ætlað er starfsmanninum sjálfum eða þriðja manni, enda hafi ívilnunin þann tilgang að fá starfsmanninn til að vinna eða láta ógert að vinna einhver þau verk sem tengjast opinberum skyldum hans. Þetta þarf einnig að vera gert í því skyni að ná eða halda viðskiptum eða öðrum ótilhlýðilegum ávinningi í alþjóðlegum viðskiptum.

Samningurinn leggur einnig þær skyldur á samningsríkin að þau geri þær ráðstafanir sem nauðsynlegar séu til að lögaðilar verði ábyrgir vegna mútugreiðslu til erlends opinbers starfsmanns. Þá fjallar samningurinn um framsal, refsilögsögu, meðferð mútumála, fyrningarfrest, gagnkvæma réttaraðstoð og eftirlit til að fylgjast með framkvæmd samningsins.

Ísland fullnægir þegar flestum þeim skuldbindingum sem felast í mútusamningnum. Þó verður að gera nokkrar breytingar á 109. gr. almennra hegningarlaga þar sem lögð er refsing við því að múta opinberum starfsmanni. Það ákvæði er bundið við innlenda opinbera starfsmenn og því verður að kveða sérstaklega á um refsinæmi mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna. Einnig er nauðsynlegt að breyta verknaðarlýsingu ákvæðisins til samræmis við mútusamninginn.

Þá verður að bæta nýjum tölulið við 6. gr. hegningarlaga þannig að unnt verði að sækja mann til saka hér á landi þótt brot sé framið erlendis. Til að mútusamningurinn verði fullgiltur er enn fremur nauðsynlegt að með lögum verði lögð ábyrgð á lögaðila vegna mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna. Tillögu um ábyrgð af því tagi er að finna í öðru af þeim frumvörpum sem ég mæli fyrir. Þar er lagt til að sett verði sérstök lög sem mæla fyrir um þessa ábyrgð en ekki þykir að svo komnu ástæða til að mæla fyrir um refsiábyrgð lögaðila í hegningarlögum sem til þessa hafa verið bundin við persónulega ábyrgð. Á þessu kynni þó að verða breyting síðar eftir því sem endurskoðun hegningarlaganna vindur fram.

Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efnisákvæðum þeirra tveggja frumvarpa sem hér liggja fyrir og legg til að þeim verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.