Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 13:50:44 (582)

1998-10-20 13:50:44# 123. lþ. 14.6 fundur 142. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. á þskj. 142, um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði, sem er 142. mál. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Tillagan hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta Byggðastofnun gera tilraun um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.

Verkefnið verði tilraunaverkefni til fimm ára og stutt með framlögum úr ríkissjóði.``

Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum missirum hafa verið mótaðar hugmyndir um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Áætlað er að keyrt verði á tveggja tíma fresti, frá kl. 7.00 árdegis til kl. 24.00 á miðnætti, á þremur leiðum:

1. Akureyri--Hjalteyri--Hauganes--Árskógssandur--Dal\-vík--Ólafsfjörður.

2. Akureyri--Kristnes--Hrafnagil--Laugaland.

3. Akureyri--Svalbarðseyri--Laufás--Grenivík.``

Við leggjum til að þetta verði tilraunaverkefni í fimm ár, stutt með framlögum úr ríkissjóði á móti sveitarfélögunum. Form svona reksturs er í raun og veru opið. Þetta gæti hugsanlega verið byggðasamlag en það er líka hægt að hugsa sér að um stofnun raunverulegs einkafyrirtækis yrði að ræða þar sem til kæmu stuðningsframlög.

Byggð á svæðinu mundi styrkjast með greiðari samgöngum fyrir alla íbúa. Ungmenni sem sækja framhaldsskóla á Akureyri geta fremur búið heima. Hafa ber í huga að það tekur t.d. ekki lengri tíma að fara frá Akureyri til Dalvíkur en úr miðbæ Reykjavíkur frá Lækjartorgi og upp í Breiðholt. Það er sannfæring okkar að það sé svæðinu til stórkostlegs framdráttar að setja upp almenningssamgöngukerfi líkt þeim kerfum sem sett hafa verið upp á landsbyggðinni í t.d. Skandinavíu og á Jótlandi í Danmörku, þar sem sú hefur orðið raunin.

Við ímyndum okkur að hagræðing verði í skólaakstri og allri þjónustu við stofnanir, svo sem eins og Kristnesspítala. Sumar stofnanir og sveitarfélög stunda sjálf skólaakstur sem mundi ganga inn í þetta kerfi og stofnanir eins og t.d. Kristnesspítali kaupa akstur á starfsfólki og að einhverju leyti sjúklingum. Það er því hugsanlegt að þetta kerfi gæti nýst þessum rekstraraðilum.

Stóra málið e.t.v. í þessari hugmynd um almenningssamgöngukerfi í Eyjafirði er þjónusta við ferðamenn. Eins og við vitum hefur einkatúrismi vaxið á undanförnum árum. Það er borðleggjandi að út frá Akureyri mundi almenningssamgöngukerfi á tveggja tíma fresti nýtast ferðamönnum og gera þeim allan aðgang að svæðinu miklu auðveldari.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að aðgerðin er orkusparandi. Það fer allt of lítið fyrir slíkum umræðum í samgöngumálum okkar á Íslandi. Þó vil ég nefna að í gær flutti hv. 1. þm. Vestf., Einar Guðfinnsson, þáltill. um athugun á því hvort hyggilegt væri að beita vegtollum í orkusparandi tilgangi. Umræðan um orkusparnað í samgöngukerfinu er því að byrja að mínu áliti og þetta er innlegg í það.

Við nefndum í umræðunum í gær, og það tengist þessu, hugmyndir um strætó eða almenningssamgöngukerfi, rafmagnsbíla og vegtolla til þess að jafna eða draga úr orkunotkun o.s.frv. Málið hefur verið kynnt embættismönnum í forsrn. Eins og öllum er kunnugt þá fer forsrn. með byggðamál og í okkar huga er þetta fyrst og fremst tilraun til byggðastyrkingar. Aðkoma Byggðastofnunar að málinu er fyrst og fremst til þess að gera úttekt á því hvernig til tekst á þessum fimm árum sem tilraunin á að taka. Ef vel tækist til þá yrði þetta módel e.t.v. nothæft fyrir önnur landsvæði.

Í umræðum um þessi mál á Eyjafjarðarsvæðinu sem sveitarstjórnarmenn og hagsmunaaðilarallir hafa komið að, bæði í ferðaþjónustu og þeir sem eru nú með sérleyfisaksturinn, hafa nágrannar okkar í Þingeyjarsýslum, t.d. sérleyfishafi Húsavíkurleiðar, lýst miklum áhuga á því að fá að tengjast kerfinu þegar og ef góð reynsla verður af því og það gæti jafnvel verið innan þessara fimm ára sem er talað um.

Ég vona að þessi tillaga til þál. fái góðar undirtektir og að litið verði á þetta sem verkefni til byggðastyrkingar í Eyjafirði, tilraunaverkefni með framlagi úr ríkissjóði til fimm ára. Að þeim tíma liðnum er það að sjálfsögðu okkar von að kerfið geti verið sjálfbært og staðið undir sér.