Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:14:45 (591)

1998-10-22 11:14:45# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alrangt að í frv. felist einhver byggðafjandsamleg stefna og að leggja þannig út af frv. og túlka 16. gr. á þann hátt sem hv. þm. gerði er með ólíkindum ef hv. þm. ber í raun fyrir brjósti frjálsa leiklistarstarfsemi í landinu, hvar sem er á landinu. Í þessari grein er alls ekki verið að mismuna aðilum eftir því hvar þeir eru staðsettir á landinu, þvert á móti.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um 6. gr. frv. og þann rangsnúning og grundvallarmisskilning sem kom fram á greininni, þá er eins og hv. þm. hafi alls ekki lesið greinina því þar stendur, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs.``

Það er alrangt hjá hv. þm. að búið sé að breyta þessu ákvæði eitthvað frá því sem var í frv. eins og það var lagt fram á síðasta þingi.

Og síðan hitt að líta þannig á að þetta ákvæði í lögunum mæli fyrir um æviráðningu þjóðleikhússtjóra er líka hrein rangtúlkun á frv. og alger grundvallarmisskilningur á því í hverju æviráðning felst.