Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:41:31 (598)

1998-10-22 11:41:31# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að Bandalags ísl. leikfélaga er getið í 14. gr. af því að þeir eiga að setja fram ákveðnar tillögur um úthlutun. Í gildandi lögum fær bandalagið hins vegar beinan styrk frá hinu opinbera og dálítill munur er þar á.

Hvað á að vera í rammalöggjöf? Mér finnst allt í lagi og miklu meira en það, mér finnst sjálfsagt að í rammalöggjöf komi fram tilteknar áherslur, tiltekin pólitík. Mér finnst sjálfsagt að í rammalöggjöf komi það fram að ríkið hafi áhuga á því að leiklistarstarfsemi sé um allt land og ætli þess vegna að vera með tilteknar ráðstafanir og tilteknar áherslur í þeim efnum. Mér finnst það sjálfsagt þó það sé rammalöggjöf.

Vegna þess opna orðalags sem er í 16. gr., að taka eigi sérstakt tillit til leikstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði, þá tek ég undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur: Á að taka sérstakt tillit til t.d. Alþýðuleikhússins? Eftir hverju ætla menn að fara? Þetta er galopið, hefur enga sérstaka merkingu og svarar engan veginn væntingum þeirra sem héldu að með nýjum leikhúslögum yrði það t.d. tryggt að hér yrði til vísir að því sem kallað er landshlutaleikhús annars staðar á Norðurlöndunum og hefur, að svo miklu leyti sem við getum litið á leikhúsið á Akureyri sem slíkt landshlutaleikhús, gefið afskaplega góða raun.