Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:58:52 (600)

1998-10-22 11:58:52# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:58]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér ræðum við að nýju frv. til leiklistarlaga. Eins og fram hefur komið í umræðunni var frv. lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá eigi afgreiðslu enda gagnrýnt mjög harkalega og þá ekki síst ákvæði sem koma fram í 6. gr. um skipan þjóðleikhússtjóra, í 7. gr. um skipan þjóðleikhúsráðs og 16. gr. þar sem tekið er á stuðningi ríkisins við önnur leikfélög en Þjóðleikhúsið.

Í frv. sem nú er lagt fram er þessum atriðum breytt lítillega. Samt finnst mér eins og herslumuninn vanti. Það er jafnvel gefið til kynna að það eigi að breyta í þá átt sem gagnrýnin tók til en hins vegar er mjög lítið um tryggingar. Vil ég í því sambandi gera þessi þrjú atriði sérstaklega að umtalsefni.

[12:00]

Fyrst er það 6. gr. um ráðningu þjóðleikhússtjóra. Þar segir nú að auglýsa eigi starfið á fimm ára fresti. En ég tel að með því orðalagi sem er í greininni sé verið að opna á þann möguleika að þjóðleikhússtjóri sitji mjög lengi. Ekki kannski æviráðinn, en að hann geti setið mjög lengi. En þó eru í greininni skýr ákvæði um auglýsingu á fimm ára fresti sem eru ekki eins skýr í almennum starfsmannalögum. Mér finnst þetta því svolítil sérstaða miðað við aðra starfsmenn ríkisins en þó er þetta að mínu mati ekki nógu skýrt. Ég tel að það fyrirkomulag sem er í núgildandi lögum sé betra, þ.e. að þak hafi verið sett á þá tímalengd sem þjóðleikhússtjóri getur starfað. Ég tel að í þessu tilviki, ef við miðum við fimm ára ráðningartíma, þá sé æskilegt að setja hámark tíu ár og vil ég í því sambandi benda á fordæmi við ýmis erlend stöndug leiklistarfélög, t.d. National Theatre í London og Shakespeare Theatre þar sem tíu ár er hámarksráðningartími.

Ég tel að slík regla muni virka mjög hvetjandi bæði fyrir starfandi þjóðleikhússtjóra og einnig fyrir aðra listamenn á sviðinu, að eygja möguleika á að keppa. Ég fagna því að auglýsa á embættið á fimm ára fresti en ég tel að setja eigi þarna inn hámarksákvæði um tíu ár.

Varðandi 7. gr. um skipun þjóðleikhúsráðs má vissulega segja að ekki sé verið að slaka á pólitísku klónni í frv. en sú breyting er gerð að menntmrh. á að skipa pólitísku fulltrúana en ekki þingflokkar Alþingis. Þó að það sé vissulega álitamál hvort fjölga eigi fagmönnum í þessu fimm manna þjóðleikhúsráði, þá tel ég eðlilegt þar sem um mjög mikilvæga ríkisstofnun er að ræða að menntamálayfirvöld hafi þar örugga stjórn. Ég geri ekki athugasemd við það í þessu tilviki fremur en almennt að framkvæmdarvaldið skipi þá fulltrúa og því finnst mér þessi grein í raun ásættanleg eins og hún er núna.

Þriðja stóra álitamálið varðar 16. gr. og stuðning við aðra leiklistarstarfsemi en Þjóðleikhúsið. Í stað þess að telja upp þá aðila, eins og gert er í núgildandi lögum sem fá stuðning, þá er valdið fært til framkvæmdarvaldsins, þ.e. menntmrh., til að ákveða hverja skuli styrkja hverju sinni. Í gildandi lögum eru leikfélög sérstaklega nefnd t.d. Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar, Íslenska óperan og svo Bandalag íslenskra leikfélaga, en í þessu frv. er engin slík upptalning en þó er bætt við í lok 16. gr. ákvæði sem styrkir aðeins stöðu þessara félaga, þ.e. orðalagið er þetta, með leyfi forseta:

,,Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.``

Í athugasemd með 16. gr. eru sérstaklega tilnefnd Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Reykjavíkur og Íslenska óperan, og tel ég það til bóta miðað við orðalag greinanna að þessi félög skuli a.m.k. vera nefnd í athugasemdum, en Bandalag ísl. leikfélaga er ekki nefnt sem ég tel tvímælalaust að ætti að vera.

Herra forseti. Ég tel það vissulega álitaefni í landslagi eins og núna þegar næstum því mánaðarlega koma upp mjög gróskumiklir leikhópar, að binda eigi með lögum stuðning við ákveðna aðila en ekki aðra. Ég tel þó að þau félög sem nefnd eru í athugasemdum, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og Íslenska óperan, hafi svo mikla sérstöðu að ekki sé nægjanlegt að nefna þau í athugasemdum, betra væri að nefna þau í sjálfri lagagreininni. Og þar vildi ég einnig sjá Bandalag íslenskra leikfélaga nefnt með sömu rökum því að þetta félag hefur algjöra sérstöðu þegar störf áhugaleikhópa í landinu eru annars vegar. Að mínu mati er því stigið of stutt skref þó að lokasetning lagagreinarinnar sé til bóta.

Ég tek undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að í frv. kemur ekki fram afdráttarlaus stefnumörkun gagnvart leiklist á landsbyggðinni. Auðvitað á að fjalla um byggðamál þegar fjallað er um einstaka málaflokka því að byggðastefna sem byggir bara á einhverjum sérlögum eða sérstakri stofnun, eins og Byggðastofnun, getur ekki orðið lífvænleg. Það þarf að samþætta byggðamál inn í öll mál ef hún á raunverulega að hafa áhrif.

Ég tel að í frv. komi skýrt fram að byggðastefna Sjálfstfl. í menningarmálum ristir ekki mjög djúpt og er ég þá sérstaklega að tala um leiklistarmálin. Hún ristir ekki það djúpt að tryggja beri með lögum að lífvænlegt leiklistarlíf blómgist á landsbyggðinni. Nei, það á að vera á valdi menntmrh. hverju sinni að ákveða slíkt. Ég tel að þetta sé ekki nægilega skýrt og vildi gjarnan sjá kveðið skýrar að orði, ekki síst frá Sjálfstfl. sem telur sig nú vera mjög vinsamlegan byggð í landinu úti um allt land.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál að sinni en mun beita mér fyrir ofannefndum breytingum í hv. menntmn. Það er auðvitað ekkert skrýtið að mál af þessu tagi sé mjög umdeilt. Margir eru um hituna og mjög blómlegt leiklistarlíf er í landinu, sem betur fer, og mér finnst sjálfsagt að hv. nefnd hlusti á sem flest sjónarmið. En löggjafinn hlýtur að þurfa að hafa skýra meginstefnu sem hlýtur að hafa það markmið að efla leiklistina í landinu og að því opinbera fjármagni sem er veitt til þessa málaflokks sé varið sem best þannig að sem flestir geti nýtt þetta fjármagn og að leiklistin verði á sem hæsta stigi.