Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:11:42 (602)

1998-10-22 12:11:42# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:11]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Í sambandi við frv. sem liggur frammi um leiklistarlög, svo og um frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, þá hafa spunnist mjög miklar umræður um það hvað felist í raun í því að fella niður upptalningu á leikfélögum sem fram kemur í 2. gr. gildandi leiklistarlaga. Því er haldið fram að í þessari upptalningu séu fólgnar einhvers konar tryggingar gagnvart þeim aðilum sem taldir eru upp.

Nú er það ekki svo þegar um fjárveitingar er að ræða að tryggingar séu fólgnar í því að slík upptalning fari fram, og á það raunar ekki eingöngu við um leiklistarlög heldur almennt. Fjárlagagerðin ræður því að sjálfsögðu hversu ríflega veitt er til einstakra stofnana, fyrir utan það að þar sem samningar eru í gildi um þessi mál eru stjórnvöld samningsbundin af framlögum sínum og eru í raun þær einu tryggingar sem hægt er að tala um í þessu sambandi.

Ef við lítum á upptalninguna í gildandi lögum þá er Leikfélag Reykjavíkur m.a. talið þar upp og þar er minnst á óperustarfsemi. Nú hefur reyndin hins vegar orðið sú að Leikfélag Reykjavíkur hefur ekki fengið framlög úr ríkissjóði og er það afleiðing þess að samningar voru gerðir um að hlutverkaskipti yrðu milli ríkisins og Reykjavíkurborgar með þeim hætti að ríkið styrkti óperu sem hér starfar, Íslensku óperuna, en Leikfélag Reykjavíkur kæmi í hlut borgarinnar.

Það er að sjálfsögðu erfitt að leita jafnvægis í því hvernig ríkið á að styrkja menningarstarfsemi sem fram fer í sveitarfélögum. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að reyna að leita einhvers konar jafnvægis að því er varðar höfuðborgarsvæðið annars vegar og landsbyggðina hins vegar. Mjög mikil tilhneiging er til þess að ríkið hafi meiri umsvif á höfuðborgarsvæðinu í menningarmálum en annars staðar á landinu og þar af leiðandi ekkert óeðlilegt, t.d. út frá byggðasjónarmiði séð, að þegar sú staða kemur upp að starfsemi, eins og Íslenska óperan, er sett á kostnað ríkisins þá sé dregið úr stuðningi ríkisins við Leikfélag Reykjavíkur til að skapa einhvers konar jafnvægi í þeim styrkveitingum. Þetta er nú það fyrsta.

Í öðru lagi kemur í ljós í sambandi við 2. gr. gildandi laga að engar tryggingar eru fólgnar í því að aðilar séu taldir upp í þessum lögum. Besta dæmið um það er Leikfélag Reykjavíkur sem hefur ekki fengið framlög úr ríkissjóði þó að það sé talið upp.

[12:15]

Í raun er þessi upptalning hluti af liðnum tíma og ber hans merki. Í frv. hefur komið fram sá vilji að fella niður upptalningarnar en með þeirri tæknilegu aðgerð er ekki ætlunin að draga úr framlögum til þeirra sem stunda leiklistarstarfsemi úti á landi.

Það var sérkennilegur málflutningur sem fram kom áðan, að líta svo á að niðurfelling upptalningar á stofnunum í 2. gr. núgildandi laga væri sérstök árás á landsbyggðina. Í þessari upptalningu eru fyrst og fremst stofnanir í Reykjavík og fyrst og fremst verið að fella niður upptalningu á þeim. Því er mjög sérkennilegt að túlka þetta atriði sem sérstaka árás á landsbyggðina. Ef eingöngu væru felldar úr upptalningunni stofnanir á landsbyggðinni, þá væri kannski hægt að líta á það sem árás á landsbyggðina en svo er ekki og þessi umræða öll frekar óeðlileg.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir taldi að valdið væri fært til framkvæmdarvaldsins en í framkvæmdinni hafa verið gerðir samningar milli ríkisins og aðila þó í lögum hafi ekki beinlínis verið kveðið á um að það væri heimilt fyrr en nú í þessu frv. Hverjir hafa gert þessa samninga? Að sjálfsögðu hefur framkvæmdarvaldið gert þessa samninga. Hafi þessir samningar styrkt leiklistarstarfsemi um skeið eins og það hefur gert á Akureyri, þá er það að sjálfsögðu verk framkvæmdarvaldsins. Ég endurtek það að í samningunum er fólgin hin eina raunverulega trygging.

Samstarf ríkisins, Akureyrarbæjar og Leikfélags Akureyrar sem nú er bundið með þríhliða samningi þessara aðila hefur styrkt starfsemi Leikfélags Akureyrar og menningarstarfsemi á Akureyri yfirleitt. Aðdróttanir um að á bak við þetta frv. sé dulin árás á Leikfélag Akureyrar eða landsbyggðina fá ekki stuðst við neinar staðreyndir. Það liggur t.d. fyrir í fjárlagafrv. að þar er aukinn stuðningur við menningarmál á Akureyri og verður áfram unnið að framhaldi á þessu samstarfi milli ríkisins, Leikfélags Akureyrar og bæjarstjórnar, þ.e. nýrrar bæjarstjórnar. Ég held því að hér búi eitthvað allt annað á bak við en staðreyndir málsins. Staðreyndin er að núv. menntmrh. og sá sem sat í því sæti á undan honum hafa ekki dregið úr framlögum til menningarmála, t.d. á Akureyri. Þvert á móti hafa þeir styrkt þau með ýmsum hætti og þá er átt við menningarmálin í víðasta samhengi. Það á t.d. við um myndlistarkennslu og leiklistarstarfsemi. Því er sérkennilegt hversu umhugað hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur er að vekja tortryggni í þessu sambandi. Það vekur upp spurningar um það hvort ekki sé kominn inn í þingsalinn, eins og var í fyrra, einhvers konar kosningaskjálfti og menn vilji byggja sér upp einhverja stöðu með því að vekja tortryggni.

Byggðastefna Sjálfstfl. ristir ekki djúpt, sagði hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir. Sjálfstfl. þarf ekki að fyrirverða sig fyrir stefnu sína í menningarmálum og síst af öllu gagnvart landsbyggðinni. Hann hefur tekið á því máli og þar er meira í vændum.