Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:23:11 (605)

1998-10-22 12:23:11# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:23]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Það hefur komið fram að ef ríkið hefði ekki talið sig hafa skyldur við Leikfélag Rekjavíkur, af því að það stendur í lögum, þá hefði það ekki farið út í þessa samningsgerð. Ef fullur vilji er fyrir hlutunum þá er eðlilegast að það komi fram í lögum. Ef fullur vilji er fyrir því að styrkja Leikfélag Akureyrar, að um áframhaldandi samningsgerð verði að ræða og skilningur er á mikilvægi þess, af hverju kemur það þá ekki fram í textanum? Af hverju má þá ekki segja það? Það veldur tortryggni og það er eðlilegt. Það er nefnilega ekki nóg að segja hlutina þannig að gefið sé í skyn að einhver meini vel. Það þarf að koma fram í lögum til þess að menn trúi því. Ég stend við það sem ég sagði, herra forseti: Það skiptir máli fyrir mjög marga aðila að þeirra sé getið í lögum. Annars væri löggjöf á Íslandi allt öðruvísi en hún er. Í hvert sinn sem hér eru sett lög, þá er auðvitað matsatriði hvort og þá hvernig geta eigi þeirra aðila sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Það er iðulega gert og með því er mörkuð ákveðin stefna og ég auglýsi eftir þeirri stefnu hér. Orðin tóm nægja ekki. Ef menn vilja að orðunum sé treyst, þá þurfa þau að standa í lögunum.