Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:25:12 (606)

1998-10-22 12:25:12# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:25]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lendir í miklum vandræðum með að sannfæra þingheim um að sú staðreynd að Leikfélag Reykjavíkur var nefnt í 2. gr. hafi verið aðalástæðan fyrir því að hægt var að semja við Óperuna. Samningagerðin leiddi til þess að styrkur til LR féll niður og Leikfélag Reykjavíkur kvartar sáran undan því. Í hverju er þá fólginn sá hagur sem Leikfélag Reykjavíkur hefur af þessu? Hvaða trygging er fólgin í þessu fyrir Leikfélag Reykjavíkur? Um það snerist spurningin sem ég varpaði hér fram áðan, þvert á móti því sem hv. þm. hélt fram hér að Leikfélagi Reykjavíkur væri einhver trygging í 2. gr.

Að sjálfsögðu skipta hér máli gjörðir manna og í þessari umræðu hefur það sýnt sig að fullur vilji er fyrir því að standa við bakið á menningarstarfsemi úti á landi og þar á meðal Leikfélagi Akureyrar. Til Leikfélags Akureyrar eru gerðar miklar kröfur sem eðlilegt er og það er fullur vilji til standa við bakið á Leikfélagi Akureyrar. Það sem staðfestir þessi orð eru gerðirnar. Það eru framlögin og það eru samningarnir sem skipta mestu máli. Í samningunum finna félögin og Leikfélag Akureyrar þar á meðal þá tryggingu sem hægt er að ætlast til.