Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:26:58 (607)

1998-10-22 12:26:58# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:26]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. Tómas Ingi Olrich taldi að stefna menntmrn. væri sú að færa sem mest af menningu og þar á meðal leiklist út á land. Ef þetta er meiningin, hvers vegna er frv. þá hannað svo sérkennilega sem hér er? Þar vil ég sérstaklega nefna 15. gr. Þar stóð áður að sveitarfélögum bæri skylda til að styrkja leiklistarstarfsemi a.m.k. jafnmikið og ríkið gerði samkvæmt tillögum Bandalags ísl. leikfélaga. Samkvæmt frv. er það nú orðað svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið er í árlegri fjárhagsáætlun þeirra.``

Þetta finnst mér gefa sveitarfélögum færi á að víkjast undan því að styrkja leiklistarstarfsemi ef þannig stendur í bólið hjá þeim. Mér finnst þetta ekki vera til framfara fyrir leiklistarstarfsemi á landinu og ég skil ekki hvers vegna þetta skref er tekið. Ég vil biðja hv. þm. að útskýra það fyrir mér. Að lokum vil ég taka fram að það skiptir máli að þeirra atvinnuleikhúsa sem hér hafa verið talin upp sé getið í lögum. Ef hv. þm. og hæstv. ráðherra eru þeirrar skoðunar að það skipti engu máli, hvers vegna eru þeir þá svo harðir á því að textanum verði ekki breytt?