Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:10:56 (619)

1998-10-22 13:10:56# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held við komumst í sjálfu sér ekki lengra í þessum umræðum í dag. Varðandi hugtakið landshlutaleikhús þá hafa menn aðallega, ef ég hef spurt um hvað í því felist, bent á aðgerðir sem Norðmenn hafa gripið til í sínu landi. Það getur vel verið að það gagnist vel þar en það á nú eftir að ræða það betur og útfæra hér ef menn ætla að koma með nýtt hugtak inn í þessar umræður og leggja áherslu á það.

Leikfélag Akureyrar er merk stofnun en eins og ég hef svo margítrekað hér í þessum umræðum er ekki með neinu móti verið að vega að Leikfélagi Akureyrar með þessu frv. Þvert á móti byggist stuðningur ríkisins við Leikfélag Akureyrar á þeim samningi sem er í gildi milli ríkisvaldsins og Akureyrarbæjar um menningarstarfsemi á Akureyri. Og í frv. til fjárlaga núna er gert ráð fyrir því að auknu fé verði varið til þess að efla þetta samstarf og stuðla þannig að auknu menningarlífi á Akureyri og er það alveg án tillits til þess hvað stendur í leiklistarlögum, enda fjalla lögin ekki um slíka hluti.