Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:31:54 (621)

1998-10-22 13:31:54# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:31]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Mikill vandi blasir við í málefnum fangelsanna ef 80% fangavarða hafa þegar skrifað uppsögn sína og ætla að hverfa til annarra starfa. Þetta segja forustumenn stéttarfélags fangavarða. Enn hafa fangaverðir ekki náð svokölluðum aðlögunarnefndarsamningum og telja sig standa á byrjunarreit eftir langt þref.

Ummæli fangelsismálastjóra í Morgunblaðinu 14. október sl. eru kaldhæðnisleg. Hann gerir lítið úr áformum um uppsagnir og telur auðvelt að manna stöðurnar á ný, ,,alltaf hægt að bjarga slíkum hlutum,`` segir hann. Síðan bætir hann við og segir, með leyfi forseta: ,,Eins og staðan er núna hef ég litla trú á því að málið leysist.`` Sem sé pattstaða, fangaverðir munu hverfa til annarra starfa og finnst ábyrgð sín og reynsla í starfi að engu höfð.

Óumdeilt er að störf fangavarða hafa breyst á undanförnum árum. Kröfur til starfsins hafa vaxið verulega en launakjör fangavarða farið versnandi miðað við samanburðarstéttir. Samkvæmt úttekt kjararannsóknarnefndar kemur fram að t.d. laun lögreglumanna voru 15% hærri en fangavarða árið 1990 og í apríl 1998 eru þau orðin 34% hærri og eru lögreglumenn alls ekki ofsælir af kjörum sínum.

Mér skilst að eitt aðalatriðið í aðlögunarsamningum sé að meta hvers eðlis starfið sé, þar séu laun felld undir fjóra ramma: A, B, C og D. Í ramma A eru almenn störf sem jafnan eru unnin undir stjórn annarra. Starfið krefst ekki sérhæfingar. Undir þennan lið vill fulltrúi ríkisins fella störf fangavarða. Í mörgum samningum sem náðst hafa fram við aðra starfshópa eru 17 ára unglingar í þessum flokki. Fangaverðir gera kröfu um að heyra undir ramma B, sérhæfð störf sem fela í sér umsjón og ábyrgð á sérstökum verkefnum og/eða umsjón skilgreindra verksviða. Störfin krefjast sjálfstæðis í starfi en eru undir ábyrgð eða umsjón næsta yfirmanns.

Hæstv. forseti. Í mínum huga leikur ekki vafi á því að störf fangavarða eru sérhæfð. Þeir ganga í gegnum sérhæft nám. Krafist er tveggja ára framhaldsnáms og fangavarðaskólinn er sértækur skóli. Í starfinu felst mikil ábyrgð og hófstillingar er krafist við erfiðar aðstæður. Oft þarf að fást við sjúka menn sem ekki gera greinarmun á réttu og röngu. Því spyr ég: Hvert er viðhorf hæstv. dómsmrh. til þessa deiluatriðis? Telur hann störf fangavarða sérhæfð og að í þeim felist mikil ábyrgð?

Ég vil enn fremur, hæstv. forseti, spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann óttist ekki þá stöðu að fangaverðir segi upp störfum og hvort hann telji auðvelt að manna stöður fangavarða eins og fangelsismálafulltrúi fullyrti í fyrrgreindu viðtali. Undir löggæslustörf falla störf lögreglu, tollvarða og fangavarða. Er ekki eðlilegt að þessi vandasömu störf fylgist að hvað hæfniskröfur og launakjör varðar?

Í nágrannalöndum okkar hefur verið mótuð opinber stefnumótun í fengelsismálum. Er slíkt ekki tímabært hér, hæstv. dómsmrh.?

Hæstv. forseti. Ég vil til viðbótar minnast á tvö mál sem snúa að öryggis- og tryggingamálum fangavarða. Mér skilst að eftir að skaðabótalöggjöfinni var breytt séu tryggingamál fangavarða í upplausn. Verði þeir fyrir slysi og varanlegum skaða eftir átök við fanga verða þeir að sækja málið sjálfir á hendur fanganum sem slysinu olli og dómar sem fallið hafa eru í þá átt. Þetta er óöryggi fyrir þá sem vinna þessi störf. Vinnuveitandinn, þ.e. ríkið, telur vinnuslysið sér óviðkomandi. Þarna hafa orðið mistök í löggjöf sem ófært er fyrir fangaverði og fjölskyldur þeirra að una við. Hefur hæstv. dómsmrh. kynnt sér þetta mál og hver er skoðun hans á því?

Hæstv. forseti. Eitt brýnasta verkefni dagsins er að koma í veg fyrir að fíkniefni berist með gestkomandi fólki inn í fangelsin. Þetta er vandamál í dag en tæknin og hertar öryggisregur eru mikilvægar svo slíkt eigi sér ekki stað.