Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:11:47 (631)

1998-10-22 14:11:47# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu um byggðamál og þá sérstaklega málshefjanda, hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. Þingflokkur jafnaðarmanna óskaði sérstaklega eftir því á liðnu vori að þáltill. sú sem rætt var um í máli hæstv. forsrh. kæmi þá þegar til umræðu. Það segir nokkuð um að við álítum þessi mál mikilsverð en miður þá vannst ekki tími til að ræða hana.

Við erum sammála um að mikilla aðgerða sé þörf en spurningin er hvaða aðgerða eigi að grípa til. Við teljum og höfum sett fram í stefnumálum okkar að jöfnun húshitunarkostnaðar, jafnt aðgengi að læknisþjónustu, skólum og ekki síst jafnt aðgengi til atvinnu, séu grundvallaratriði sem taka þurfi á ef stöðva eigi þennan flótta af landsbyggðinni.

Flóttinn er slíkur að í byggðarlagi hér í nágrenninu, í Kópavogi, rís byggð sem nemur einni Grindavík á hverju ári, nú á undanförnum árum. Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að fólkið sækist eftir sama aðgengi og ég nefndi hér áðan. Þetta eru lykilatriðin.

Það má líka velta því fyrir sér hvort Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafi ekki fengið öfugt hlutverk á við það sem hann hafði áður. Hann átti að hjálpa dreifðari byggðum. Það liggur við að það þurfi orðið að hjálpa þéttbýlinu til að taka við fólkinu utan af landi.

Þess vegna segi ég: Það er mikil ástæða til að spyrna við fótum og við eigum að taka sameiginlega á því. Við ættum hvorki að kenna hver öðrum né ríkisstjórninni um hvernig komið er. Við eigum að snúa til baka þróun undanfarinna ára.