Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:13:55 (632)

1998-10-22 14:13:55# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Stundum heyrist í umræðum um byggðamál að aðgerðir í byggðamálum séu tilgangslitlar vegna þess að flutningar séu mjög miklir til höfuðborgarsvæðisins þrátt fyrir þær aðgerðir sem farið hefur verið út í á liðnum áratugum. Menn gæta ekki að því að ástandið í þjóðfélaginu væri hálfu verra ef ekkert hefði verið að gert. Því miður hefur stuðningur við landsbyggðina farið ört minnkandi, aðgerðir í byggðamálum hafa farið dvínandi og ástandið farið versnandi.

[14:15]

Á Íslandi er meiri þörf á aðgerðum í byggðamálum en í flestum öðrum Evrópulöndum. Þó er líklega hvergi minni stuðningur í formi aðgerða í byggðamálum en einmitt hér. Ef við berum okkur saman við nálæg lönd, t.d. löndin í Evrópusambandinu, þá er miklu meiri stuðningur og styrkir til byggðamála þar en hér, margfalt meiri satt best að segja og hefur oft verið á það bent.

En hvað skal gera? Auðvitað kemur margt til greina en það kostar allt aukið fjármagn. Ég hef oft á Alþingi bent á að það þarf að stuðla að jöfnun verðlags. Raforkuverðið er t.d. miklu hærra víða úti um landsbyggðina. Það þarf líka stjórnkerfisbreytingar eins og frummælandi benti alveg réttilega á. En síst af öllu þurfum við á því að halda að sundra þeim stjórnsýslueiningum sem þó eru nú til staðar í formi núverandi kjördæma. Það væri að fara úr öskunni í eldinn.