Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:18:26 (634)

1998-10-22 14:18:26# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem að sjálfsögðu fæst ekki niðurstaða í á svo stuttum tíma sem hér er til umráða. En ég vil segja í upphafi að auðvitað er enginn ánægður með þá þróun sem hefur orðið, hvorki á landsbyggðinni né í Reykjavík.

Spurningin er þessi: Er hægt að vinna gegn þessari þróun og hvernig yrði það helst gert? Ég vil halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi svo sannarlega sýnt viðleitni í þá átt. En betur má ef duga skal. Hér er, eins og kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, varið hlutfallslega minni fjármunum til byggðamála en hjá ýmsum nágrannaþjóðum. Því hefur verið haldið fram að það sé helmingi minna en hjá Finnum og aðeins um 40% af því sem Svíar verja til þessa málaflokks.

Mörg rök eru fyrir því að reka byggðastefnu. Það má nefna menningarleg rök, efnahagsleg rök og sumir nefna einnig öryggissjónarmið, þ.e. að ekki sé rétt að setja öll eggin í sömu körfuna. Ég held því fram að það megi breyta þessu og bæta úr með fjármunum. Ástandið var þannig, eins og allir vita, í upphafi þess kjörtímabils sem nú er að ljúka að svigrúm var ekki mikið. Það varð að fara í það fyrst og fremst að reyna að ná tökum á efnahagslífinu og ríkisfjármálunum. Engu að síður eru t.d. í fjárlagafrv. fyrir næsta ár um 800 millj. kr. að auki í vegamál. Það er verið að efla skógrækt og fram undan eru aðgerðir í sambandi við landbúnaðinn í tengslum við þá skýrslu sem nú hefur verið gerð opinber. Dreifbýlisstyrkurinn hefur verið hækkaður um tæp 50%. En betur má ef duga skal. Það má nefna stóriðju á Austurlandi sem verið er að vinna að og að síðustu nefni ég Háskólann á Akureyri, en á morgun verður tekin þar fyrsta skóflustungan að nýjum áfanga.