Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:22:38 (636)

1998-10-22 14:22:38# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Menn hafa mikið velt vöngum yfir því hvernig hægt væri að treysta búsetu í landinu öllu. Menn hafa fært rök fyrir því að svo þyrfti að vera vegna þess að við viljum tryggja bæði menningarlegan og atvinnulegan fjölbreytileika sem við teljum að geri lífið í landinu innihaldsríkara og skemmtilegra. Menn hafa líka bent á hin efnahagslegu rök, að það þurfi að minnka þann kostnað einstaklinga, fjölskyldna og þjóðarbúsins alls sem hlýst af svo miklum búferlaflutningum, þegar eignir fólks verða verðlausar og fjárfesta þarf tvisvar í grunnþjónustu fyrir sama fólk.

Spurningin um það hvernig eigi að stemma stigu við fólksflótta er að mínu mati hins vegar ekki rétt. Ég held við eigum frekar að spyrja eftirfarandi spurningar: Hvernig getum við skapað það umhverfi atvinnu, mennta og menningar sem hlúir vel að fólki og skapar þær aðstæður sem fólk vill búa við? Svör við því hafa verið að koma fram á undanförnum árum. Það hafa verið gerðar kannanir en gallinn er sá að lítið hefur verið gert með svör úr þeim enn.

Í þáltill. um stefnu í byggðamálum sem ekki er enn komin fram, þó hún sé hér til umfjöllunar að vissu leyti, eru ágætar greinargerðir frá Háskólanum á Akureyri þar sem fjallað er um þessa hluti. En það er ekki nóg að fjalla um byggðamál í einni tiltekinni þáltill. Við verðum og það verður að láta þá hugsun og þann vilja, að fólk geti búið og þrifist um land allt, koma fram í allri löggjöf og í allri stefnumótun vegna þess að í því kemur hinn raunverulegi vilji fram, ekki í því að vísa í þáltill. um stefnu í byggðamálum.