Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:24:50 (637)

1998-10-22 14:24:50# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:24]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í umræðu um byggðamál á undanförnum áratugum hefur verið rætt um málið á þeim forsendum að landinu væri skipt í tvennt, annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðina, og annar hlutinn væri að tapa og hinn að vinna.

Ég held að það sé að renna upp fyrir mönnum að þróunin, sem er enn á sama veg og verið hefur og fer heldur vaxandi en hitt, leiðir það af sér að hvorugur vinnur, hvorki fólk á höfuðborgarsvæðinu né fólk á landsbyggðinni. Allir þekkja hvernig áhrif þessir flutningar hafa á stöðu fólks á landsbyggðinni og þarf ekki að rekja það frekar, bæði efnahagslega, félagslega og að öðru leyti. En hitt er mönnum nýtt, sem er þó að renna upp fyrir þeim, að kostnaðurinn er mjög mikill og leggst mjög þungt á íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Fjárlaganefnd heimsótti sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrr í þessum mánuði. Þá kom í ljós að fjárhagur stóru sveitarfélaganna hér, Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar, er mjög þungur og skuldir þeirra hafa verið að aukast vegna þess mikla kostnaðar sem sveitarfélögin verða að ráðast í til að byggja upp þjónustu fyrir íbúana sem eru að flytja utan af landi.

Þegar að er gáð eru nefnilega báðir aðilar að tapa, báðir verða fyrir útgjöldum umfram tekjur. Það er því hagur beggja aðila að ráðast í að stöðva þetta ójafnvægi sem verið hefur á undanförnum áratugum. Ég legg áherslu á það að fá höfuðborgarbúana í lið með okkur landsbyggðarmönnum til þess að snúa þessari þróun við. Öðruvísi mun það ekki takast nema að menn geri almenna uppreisn í þjóðfélaginu sem ég vænti að menn séu ekki að leggja til, a.m.k. á þessari stundu.