Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:33:56 (641)

1998-10-22 14:33:56# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Íbúaþróunin á landsbyggðinni er mikið áhyggjuefni. Stöðugur straumur fólks hefur verið af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins allt frá árinu 1980. Á þessu 18 ára tímabili hafa brottfluttir umfram aðflutta af landsbyggðinni verið frá 500 og upp í 1.800 manns á ári.

Í mjög ítarlegri könnun um orsakir búferlaflutninga, sem Stefán Ólafsson gerði fyrir Byggðastofnun á síðasta ári, kemur fram að einhæfni atvinnulífsins vegur mjög þungt. Enda er það svo að fólki fækkar ekkert síður á þeim stöðum þar sem mikil uppbygging hefur verið í atvinnulífinu, atvinna næg og tekjur þokkalegar. Fólkið fer ef atvinnutækifærin eru of einhæf.

Byggðastofnun hefur brugðist við þessu með því að stórauka atvinnuþróunarstarfsemi í öllum kjördæmum landsins. Þar sem sú starfsemi fór fyrst af stað, á Suðurlandi, hefur tekist mjög vel til þar sem um 30 ný fyrirtæki urðu til á tæpum tveimur árum með talsvert á annað hundrað störf og fjárfestingu upp á hálfan milljarð króna.

Annað sem vegur þungt í könnun Stefáns Ólafssonar er t.d. húshitunarkostnaður, verslunaraðstæður og samgöngumál. Í þeirri þáltill. sem hæstv. forsrh. lagði fram í vor um stefnu í byggðamálum fyrir næstu fjögur ár, og nefnd hefur verið í þessum umræðum, er það markmið sett að fólksfjölgun á landsbyggðinni verði ekki undir landsmeðaltali næstu fjögur árin. Þar eru settar fram mjög afgerandi tillögur til úrbóta á mörgum sviðum, m.a. í sambandi við atvinnuþróun, samgöngur, menntamál og lækkun húshitunarkostnaðar, þar sem stefnt er að því að verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs. Þetta er auðvitað stórmál því að sums staðar á landsbyggðinni munar um heilum mánaðarlaunum hvað það er dýrara að kynda hús en þar sem það er ódýrast.

Ég tel að þessi þáltill. sé mjög ákveðin tilraun til að snúa þróuninni við og mikilvægt að hún verði afgreidd sem fyrst á Alþingi og farið verði að vinna eftir þeirri stefnu sem þar er mótuð.